136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar stórt er spurt er oft erfitt um svör. Ég held nú að hvort heldur við erum að ræða ráðherra eða ríkisstjórn eða þingheim allan þá sé það nokkuð ljóst að allir verða að taka sig á. Við getum alveg viðurkennt það fúslega og heiðarlega í rauninni að umgengni okkar um fjárlög undanfarin ár hefur verið slík að við höfum ekkert þurft að hafa mjög miklar áhyggjur af, hvað á ég að segja, eyðslunni. Þannig ástand hefur ríkt hér á landi að við höfum ekki þurft að hafa stórar áhyggjur af því hvort við höfum átt fyrir þeim útgjöldum sem við höfum stofnað til eða ekki. Það er annar tími runninn upp og ég er þess fullviss að ríkisstjórn Íslands og stjórnarmeirihlutinn í það minnsta gerir sér fullkomlega grein fyrir þeirri stöðu að gríðarlegur vandi er fram undan við fjárlagagerð íslenska ríkisins fyrir árið 2010. Ég vil undirstrika það enn og aftur hér. Verklagið og vinnulagið hins vegar við framkvæmd fjárlaga ársins 2009 má ekki verða að mínu mati með sama brag og við höfum umgengist fjárlög síðustu ára. Það þarf að mínu mati miklu meiri aga og hann á ekki eingöngu að taka til stjórnarmeirihlutans. Sá agi hlýtur að ganga yfir allan þingheim. Það þarf einfaldlega miklu meiri aga við framkvæmd fjárlaga en hefur verið og ekki síður þarf svo að styrkja eftirlitshlutverk fjárlaganefndarinnar með framkvæmd fjárlaganna. Um það erum við hv. þm. Jón Bjarnason örugglega hjartanlega sammála.