136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðbjarti Hannessyni er vorkunn að standa að þessu fjárlagafrumvarpi, ég skil það. Varðandi þær áherslur sem hv. þingmaður var með, m.a. um skattlagninguna, sagði þingmaðurinn að honum hugnaðist betur þrepaskiptur tekjuskattur en flatur tekjuskattur sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins leggur með stuðningi Samfylkingarinnar, sem kemur náttúrlega fyrst og fremst hlutfallslega harðast niður á lægri tekjum og meðaltekjum. Mér fannst nú ágætt að heyra þar slá visst jafnaðar- og samvinnuhjarta.

Ég dreg í efa að það sé einhver óskastaða hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að það sé ríkisstjórn Samfylkingarinnar sem stendur að því að taka upp aðgangseyri að sjúkrahúsunum. Ég dreg það í efa þannig að ég skil alveg viðkvæmni hv. þingmanns.

Það sem ég ætlaði annars að spyrja um var annað sem ekki vannst tími til að taka á í fjárlaganefnd. Ég spurði um það en fékk ekki svör. Það er t.d. um tónlistarskólanám, sérstaklega dreifbýlisfólks, ungs fólks sem verður að fara langt að heiman í framhaldsskóla. Ef það ætlar að halda áfram í tónlistarnámi verður það að borga það að fullu. Þetta er búið að vera að veltast í kerfinu undanfarin ár og ríkið hefur alltaf vikið sér undan eðlilegri ábyrgð í þeim efnum.

Sama er um kostnað ungs fólks og fjölskyldna sem verða að senda nemendur langt frá sér í framhaldsskóla. Í þeim tekjusamdrætti sem nú er og verður og er þegar farinn að hafa áhrif, og atvinnuleysi (Forseti hringir.) er þetta gríðarlega íþyngjandi. Ég þekki fjölskyldur sem verða að hætta við að senda börn sín (Forseti hringir.) frá sér af landsbyggðinni í framhaldsskóla.