136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:05]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja máls á merkilegu starfi Keldna og tek heils hugar undir þau orð sem hann lét falla úr ræðustól um það.

Ég vil aðeins gera grein fyrir hvernig staðan er varðandi málefni Keldna. Nú liggur fyrir greinargerð nefndar sem leggur til að Keldur sameinist heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál eins og margoft hefur komið fram þegar verið er að ræða málefni Keldna. Í ljósi þessa var ákveðið að fela forstöðumanni Keldna og rektor Háskóla Íslands að gera drög að viðauka við rannsóknarsamninginn sem er á milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands þar sem sérstaklega er vikið að merkilegri starfsemi Keldna. Það er alveg ljóst að ekki verður gengið frá slíkum viðauka nema það sé bærileg sátt um innihald samningsins og viðaukann. Með þessu er verið að reyna að tryggja að starfsemi Keldna með slíkri sameiningu verði viðhaldið og jafnframt Keldnanafninu.

Ég vil líka geta þess að í síðustu viku átti formaður nefndarinnar sem leggur fram þessar tillögur fund með starfsmönnum Keldna þar sem verið var að fara yfir þetta. Það er því verið að reyna að hafa umræðuna opna og aðganginn eins opinn og hægt er. En meginmarkmiðið með svona tillögum er náttúrlega að efla rannsóknarstarfsemi eins og þá sem Tilraunastöðin á Keldum einbeitir sér að. Við nefndarmenn teljum að þetta sé leið til þess að styrkja starfið enn frekar en um leið þarf að gæta sérstöðu stöðvarinnar sérstaklega.