136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:12]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á þá umræðu sem hefur farið fram um matvælafrumvarpið. Í mínum huga er augljóst að málið er komið hér fyrir þingið. Það er í þinglegri meðferð. Það hefur verið samþykkt af ríkisstjórn, stjórnarflokkum og það er búið að mæla fyrir málinu í þinginu. Það mun síðan að lokinni þessari umræðu fara til þingnefndar líkt og gert var á þinginu 2007–2008. Þá átti ég meðal annars þátt í því ásamt mörgum fleirum að farið var í gegnum það frumvarp og á endanum var það ekki afgreitt. En við erum að sjá nýtt og breytt frumvarp núna með allt annarri aðkomu þeirra hagsmunaaðila sem gáfu umsögn í fyrra. Við sem eigum sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd munum að sjálfsögðu fara yfir málið eins og það liggur fyrir núna og fara yfir þá hagsmuni sem íslensk þjóð hefur við hvað þetta varðar.

Ég minnist þess hins vegar að þegar að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var landbúnaðarráðherra hér á árum áður hafði hann tök á því að stöðva innflutning á rotmassa til Íslands — hv. þingmaður ræðir mikið um heilbrigðismál — en þá var kúariða í Bretlandi. Hæstv. þáverandi landbúnaðarráðherra heimilaði innflutning á rotmassa frá Bretlandi þar sem kúariða var. Ég treysti hv. þingmanni ekkert betur en þá fyrir þessu máli. Ég held því að við eigum að treysta þeirri þingnefnd sem á að vinna málið og koma því í höfn vegna þess að við vitum sem er að við verðum að innleiða matvælalöggjöfina hér vegna hagsmuna sjávarútvegsins. (Forseti hringir.)