136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[15:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spurði mig tveggja spurninga varðandi þetta frumvarp. Varðandi gildistökuna vil ég segja að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gildistakan sé 1. mars og síðan það sem snýr að landbúnaðinum sjálfum átján mánuðum eftir það.

Það er hins vegar enginn vandi fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að breyta gildistökutímanum ef nefndin kýs að gera það þannig. Þessi dagsetning, 1. mars, er bara sett fram í ljósi þess að frumvarpið var lagt fram hér í desember og við svona horfðum til þess að það væri kannski ekki alveg óraunhæft að ljúka því í tæka tíð þannig að gildistakan gæti verið 1. mars þar sem það ætti við. Þar sem ekki þyrfti þennan lengri aðlögunarfrest. En þetta er auðvitað hlutur sem nefndin tekur afstöðu til í ljósi þess hvernig málinu vindur fram þar.

Varðandi smásöluna og skilaskylduna þá er kannski ofmælt að segja að smásalan í heild sinni hafi lýst því yfir að þau væru tilbúin að falla frá skilaskyldunni. Ég hef hins vegar rætt við framkvæmdastjóra stórrar verslunarkeðju sem hefur sagt, og jafnframt gefið mér heimild til þess að segja það, að þau væru tilbúin að falla frá skilaskyldunni með sérstökum hætti. Þetta er hlutur sem ég held að væri bara æskilegast að nefndin aflaði upplýsinga um t.d. með því að kalla fyrir fulltrúa þessara stóru fyrirtækja eins og Haga og Kaupáss til að heyra það hvort þetta sé ekki þannig.

Ég hef hins vegar vakið athygli á því að þetta mál sem snýr að samkeppnisþættinum sé kannski eitt af því stærsta sem þurfi að ræða í þessu samhengi. Ég hef raunar tekið þetta sjálfur upp við Samkeppniseftirlitið og talið að sérstakt tilefni væri til, m.a. út af þessu frumvarpi og ýmsum öðrum ástæðum bara vegna þeirrar stöðu sem uppi er, að fara betur ofan í þau mál.