136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[13:44]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Frá því að Alþingi kom saman í einni málstofu hefur það ætíð verið svo að forseti þingsins hefur komið úr hópi þeirra þingmanna sem stutt hafa ríkisstjórnina hverju sinni. Forseti hefur því verið úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins síðustu 18 ár. Þess vegna þykir mér ekki mikil reisn yfir því eftir allan þennan tíma að koma fram með umræðu af þessum toga (Gripið fram í: … meirihlutastjórn.) vegna þess, eins og hæstv. forseti vakti sérstaka athygli á áðan, að meiri hluti þingsins hefur óskað eftir að hér fari fram kosning. Það er í anda þingskapa og þetta er meiri hluti þingsins. Margir forsetar sem hér hafa setið áður hafa aukið veg og virðingu þingsins. (Forseti hringir.) Það hefur núverandi forseti einnig gert og ég vænti þess að þeir forsetar sem hér sitja í framtíðinni geri það líka.