136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka góðar óskir í minn garð og ekki mun af veita að manni fylgi góðar óskir í það verkefni sem ég hef tekist á hendur. Maður hefur ýmsar brekkur séð um dagana en ég held að ég hafi aldrei séð annan eins snarhalla og þann sem hv. þm. Árni M. Mathiesen skilur eftir sig handa arftaka sínum í fjármálaráðuneytinu.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við vorum gagnrýnin á margt í því hvernig fyrrverandi ríkisstjórn hélt á málum eftir hrunið í byrjun október og þar á meðal að loka öðrum leiðum til endurreisnar hér mögulega en þeim að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, einfaldlega vegna þess að það er vel þekkt af samskiptum við þann sjóð að hann setur ströng skilyrði sem er ekki alltaf þægileg úrlausnar fyrir þá sem eiga við að búa. Það var inn á það atriði sem ég kom í Kastljóssþætti að skilmálarnir væru Íslandi á margan hátt erfiðir og það væri áhugavert að ræða það mál sérstaklega við sjóðinn og það verður gert. Svo einfalt er það. Verið er að undirbúa heimsókn þeirra hingað um eða upp úr miðjum febrúarmánuði og þá verður farið yfir stöðu áætlunar og rætt við sjóðinn. Þetta er áætlun til tveggja ára, þá lýkur henni, en hvað stendur þá eftir ef að líkum lætur? Umtalsverð erlend lán. Ég get ekki ímyndað mér að það sé kappsmál eða keppikefli nokkurs á Íslandi að hlaða meiri erlendum skuldum á þjóðarbúið en óumflýjanlegt er. Allir hafa verið sammála um það í umræðum hér að þeim mun minna sem við þurfum að nota af þessum lánum þeim mun betra og þeim mun auðveldara verður að skila þeim eða láta þau ganga til baka.

Ég held að þegar upp er staðið sé enginn stór ágreiningur í þessu máli og að sjálfstæðismenn ættu frekar, svona þegar þeir verða búnir að jafna sig, að fagna því sem þeir vilja telja sinnaskipti hjá mér en ég tel reyndar engin vera. En ef það veldur Sjálfstæðisflokknum miklum vonbrigðum þá verður hann að vinna úr því. Ég held að þessi samskipti séu í góðum og eðlilegum farvegi. Eins og fram kom hér í gærkvöldi (Forseti hringir.) hef ég átt gott símtal við þann yfirmann hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem fer með þessi mál. Þeir fylgjast grannt með þróun (Forseti hringir.) og framvindu mála á Íslandi og ég gat ekki merkt að þeir hefðu neinar sérstakar áhyggjur af því t.d. þótt hér hefðu orðið stjórnarskipti.