136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þótt hann sé ekki kominn í salinn vil ég hefja þessa ræðu á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguræðu sína sem er jafnframt jómfrúrræða hennar á þingi og þetta er líka fyrsta frumvarp hins nýja dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur. Um leið verð ég að átelja fyrrverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Björn Bjarnason, fyrir fremur óviðurkvæmilegar athugasemdir í garð hins nýja dómsmálaráðherra. Nýjasta framlag hans á þinginu var nokkurn veginn í þeirri mynd að hinn nýi dómsmálaráðherra hefði átt að elta uppi frumvörp einhverra manna sem þá voru komnir á þing í stað þess að taka það frumvarp úr starfi dómsmálaráðuneytisins sem lá í hirslum hennar og var vissulega unnið undir stjórn Björns Bjarnasonar sem tók við þeim drögum úr viðskiptaráðuneytinu eins og hann hefur rakið, í stað þess að taka það og setja á það sitt mark og þeirrar ríkisstjórnar sem dómsmálaráðherrann situr í og flytja á þinginu. Það er í raun og veru algerlega óskiljanleg röksemdafærsla sem býr að baki þessum undarlegu aðfinnslum hv. þm. Björns Bjarnasonar við atferli hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég ætla hins vegar ekki að ræða það frekar. Ég ætla heldur ekki að bæta í þann ágæta sarp sem m.a. hv. þm. Jón Magnússon jók áðan um efnisatriði og efnislegan aðdraganda frumvarpsins. Því minnist ég á Jón Magnússon að ekki einungis flutti hann hér gott mál, heldur er hann að vissu leyti aðili að þeirri fáránlegu höfundarréttardeilu sem hér hefur uppi verið að því leyti að Jón Magnússon er ekki bara þingmaður á þinginu, heldur líka fyrrverandi forustumaður í Neytendasamtökunum og ef einhver á höfundarrétt á þessu máli eru það Neytendasamtökin hér innan lands vegna þess að þau hófu þetta mál til vegs fyrst á innlendum vettvangi og það er að vissu leyti samstarfi þeirra við systursamtök sín á Norðurlöndum að þakka að þetta mál er loksins komið til afgreiðslu á þinginu eða réttara sagt virðist eiga að afgreiða það nú á þinginu.

Ég tel nefnilega rétt, forseti, á þessum stað í umræðunni að gefa örlítið sögulegt yfirlit yfir málið. Ég þekki það sjálfur að einhverju leyti en þurfti þó að bæta við svolítilli leit, einkum í þingskjölum, sem ég bætti síðan með samtölum og vil fara aðeins yfir það vegna þess að það skiptir máli hvernig þetta mál bar að. Þá verðum við að hafa lengri tíma undir en þær vikur eða mánuði sem mönnum hefur hér orðið tíðrætt um.

Neytendasamtökin hófu málið sennilega árið 1992. Það var þá rætt á þeirra vettvangi og þau kynna það síðan meðal félaga og samtaka annarra og á pólitískum vettvangi. Þannig er það einu sinni. Þau samtök sem eðlilega taka fyrst undir eru auðvitað verkalýðshreyfingin, Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og það er engin furða því að þetta er á þeim tíma, 1992–1993, sem hér er kreppa, efnahagslægð, skörp djúp efnahagslægð sem er núna kölluð litla kreppan og er dýpri en maður kannski hyggur núna. Ég var á fyrirlestri Guðmundar Jónssonar sagnfræðings hjá Sagnfræðingafélaginu í haust, frekar en í ársbyrjun, þar sem hann fjallaði um kreppur á Íslandi. Hann sagði m.a. um þessa kreppu, 1991, 1992–1994, sem var auðvitað framhald af þeirri kreppu sem m.a. orsakaðist af efnahagsóstjórn Sjálfstæðisflokksins í stjórninni sem lauk góðu heilli 1988 og minnir svolítið á þessa stjórn sem nú er að fara frá, að hún hefði í raun og veru verið dýpri á Íslandi en sjálf kreppan mikla. Það sem hins vegar gerði hana bærilegri væri það að um 1990 hefðum við búið við velferðarþjónustu sem verkalýðshreyfingu og alþýðuflokkum hafði tekist að byggja upp og lært þar með af kreppunni miklu þar sem það var ekki fyrir hendi, enda hafði samfélaginu þá lengi verið stjórnað af borgaraflokkum og íhaldsmönnum.

Fyrsta sinn sem minnst er á þessa hugmynd á þingi, greiðsluaðlögunina, er í mars 1993 og það er í þingsályktunartillögu sem tveir þingmenn þáverandi Alþýðuflokks fluttu, Össur Skarphéðinsson, núverandi hæstv. utanríkis- og iðnaðarráðherra — ég held að ráðuneytin séu ekki fleiri í bili sem hann ræður — og Sigbjörn Gunnarsson sem þá var á þingi, gott ef hann var ekki formaður fjárlaganefndar. Kannski var það síðar, það skiptir ekki máli. Þetta voru stjórnarþingmenn á sínum tíma og þeir fluttu um það þingsályktunartillögu að félagsmálaráðherra skipaði nefnd til að kanna möguleikana á greiðsluaðlögun og þá var félagsmálaráðherra reyndar Jóhanna Sigurðardóttir sem við þekkjum núna sem hæstv. forsætisráðherra. Þá var merkilegt fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu sem var greinargerð Sólrúnar Halldórsdóttur, hagfræðings Neytendasamtakanna, þannig að höfundarrétturinn er strax í byrjun á þingi, ef við ætlum að ræða það; Neytendasamtakanna og verkalýðsflokka á þinginu.

Því má bæta við þetta að ágætur kunningi okkar sem hér sitjum og stöndum í salnum, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, flutti þetta mál raunar líka sem breytingartillögu við frumvarp um Húsnæðisstofnun um vorið þannig að hann kom hér við sögu. Jóhanna Sigurðardóttir brást við með því að láta þriggja manna nefnd sem hún hafði þá sem félagsmálaráðherra í störfum til að athuga greiðsluerfiðleika því að þetta var í litlu kreppunni, djúpu kreppunni þar sem var töluvert atvinnuleysi og mikið um gjaldþrot, þar sem menn voru píndir í gjaldþrot, kannski ekki af miklum ástæðum, kanna einmitt greiðsluaðlögun líka. Þessi nefnd skilaði svo af sér í maí 1994, var nokkuð lengi að en skilaði af sér með skýrslu þar sem mælt var með greiðsluaðlögun. Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, fór hins vegar frá í júní 1994 — af ástæðum sem flestum eru kunnar og með orðum sem lifa í Íslandssögunni og hafa hljómað mjög sterkt nú síðustu daga — og náði því ekki að fylgja þessu máli eftir.

Sá sem við tók, Guðmundur Árni Stefánsson sem varð þá félagsmálaráðherra, gaf fyrirheit um að flytja þetta frumvarp haustið 1994 en þegar hann var spurður um það á þinginu brá hins vegar svo við að Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því að þetta væri í nefnd — sem hverjir áttu aðild að? Félagsmálaráðherra vissulega og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, forveri hv. þm. Björns Bjarnasonar sem talaði hér sem mest fyrir hádegi. Og niðurstaða þess starfs, sagði Friðrik Sophusson, með leyfi forseta, „ræður því hvort flutt verður frumvarp um málið“. Þetta var áhugi fjármálaráðherrans á þessu máli þá.

Þetta fór auðvitað svo að Sjálfstæðisflokkurinn settist fyrir málið, hindraði framgöngu greiðsluaðlögunarmálsins á fyrsta kjörtímabilinu þar sem það var rætt á þinginu. Framsóknarmenn sem þá voru í stjórnarandstöðu voru nokkuð snjallir. Í febrúar 1995, á kosningaþingi auðvitað, komu þeir með frumvarp um málið og eiga þar með höfundarrétt að fyrsta frumvarpinu. Þetta gerðist í febrúar 1995 eins og ég sagði og byggðist auðvitað á vinnu Neytendasamtakanna og annarra áhugamanna og félaga úti í bæ, í þjóðlífinu réttara sagt, á þessu máli og er ekki verra fyrir það. Síðan urðu kosningar og framsóknarmenn komust í stjórn og aðrir fluttu sama frumvarpið á sumarþinginu, og það er gaman að því af því að þar er líka fólk sem við þekkjum. Fyrsti flutningsmaður var Ólafur Ragnar Grímsson og annar flutningsmaður Jóhanna Sigurðardóttir áðurnefnd og sá þriðji Össur Skarphéðinsson, öll eru þau enn í störfum og reyndar sá fjórði líka í störfum á vegum ríkisvaldsins að góðum málum, Kristín Ástgeirsdóttir.

Það fór svo að framsóknarmenn urðu að setja sitt mál líka í nefnd sem Ísólfur Gylfi Pálmason stjórnaði og sú nefnd var skipuð stjórnarþingmönnum beggja þeirra flokka sem þá fóru með stjórnina, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Niðurstaðan varð sú að greiðsluaðlögunin, með leyfi forseta, en orðum Þorsteins Pálssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, „þykir ekki henta“. Sú varð niðurstaða Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokkurinn komst ekki lengra með þetta mál í það skiptið.

Næst fréttum við af greiðsluaðlögun í frumvörpum Jóhönnu Sigurðardóttur og þá hófst mikil frumvarpasaga og mikil barátta Jóhönnu Sigurðardóttur og meðflutningsmanna hennar fyrir greiðsluaðlöguninni því að hún flutti frumvarp um greiðsluaðlögun sem ég hygg að sé að stofni til svipað — breyttist reyndar með tímanum, eftir athugasemdir sem komu fram um það — og frumvarp framsóknarmanna. Það var fyrst flutt haustið 2001, síðan haustið 2002, þá haustið 2003, síðan haustið 2004, síðan haustið 2005 og að lokum haustið 2006. Fyrst voru með Jóhönnu á þessu frumvarpi samfylkingarmenn en síðan á kjörtímabilinu sem hófst 2003 var líka á því fólk úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum. Framsókn var hætt að hreyfa sig á þessum tíma, var búin að gefast upp fyrir Sjálfstæðisflokknum í málinu þangað til í janúar 2007 þegar Jón Sigurðsson brást jákvætt við fyrirspurn frá téðri Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta mál og skipaði þá nefnd í mars 2007 sem hv. þm. Björn Bjarnason rifjaði upp áðan og þá hefst sú saga sem við sjáum núna endann á því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók við þessum nefndarstörfum og þessu starfi þegar hann varð viðskiptaráðherra eftir kosningar það vor.

Sagan nú er öllum kunn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá því að síðasta stjórn hófst þvælst fyrir þessu máli, reynt að setjast ofan á það, reynt að finna því allt til foráttu, krafist þess að skipt yrði um flutningsmann, reynt að hafa efnisatriði þess eins þröng og mögulegt væri en nú eftir stjórnarslitin, þegar Sjálfstæðisflokkurinn liggur í þessu mikla áfalli og ætti að einbeita sér að kenningunum um sorg og sorgarviðbrögð, er þetta mál allt í einu orðið þannig að aðrir menn og aðrir flokkar eru sakaðir um að hafa stolið einhverjum fjöðrum sem standi upp úr höfðinu á hv. þm. Birni Bjarnasyni og virða ekki höfundarrétt sem eins og ég sagði er sennilega í uppruna sínum norrænn en skiptist síðar í sögunni nokkuð jafnt milli Neytendasamtakanna, verkalýðshreyfingarinnar og alþýðuflokka og félagshyggjuflokka á þinginu.

Margir hafa fjallað um þetta mál í ræðustól Alþingis og mér endist ekki sá tími sem ég á eftir til að telja þá upp. Aðeins einn sjálfstæðismaður hefur mælt með því allan þennan tíma í 15 ár, aðeins einn sjálfstæðismaður hefur talið að þetta kæmi til greina sem jákvæð aðgerð. Það vill svo til að sá sjálfstæðismaður er ekki lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, var tekinn úr honum á sínum tíma en gegnir nú um stundir þjóðþrifastörfum á öðrum stað. Það er Vilhjálmur Egilsson. Þótt ég sé ekki sammála honum í stjórnmálum hlusta ég alltaf á það sem sá maður segir og hann hefur oft rétt fyrir sér. Hann leggur oft skynsamlega hluti til mála og það gerði hann í þetta sinn. Eini sjálfstæðismaðurinn frá árinu 1993 til ársins 2009 þegar sjálfstæðismenn loksins hafa skipt um skoðun.

Hvernig stendur á þessu? Ég veit það ekki. Það verða sjálfstæðismenn að skýra sjálfir. Það er ljóst að bankarnir voru mjög á móti þessu máli á sínum tíma og fleiri hagsmunaöfl, sennilega líka margir lögfræðingar sem þótti þetta ekki vera hagstætt fyrir sig, en lærdómurinn sem við fáum úr þessari sögu er sá að hér á Alþingi hefur sennilega verið meiri hluti fyrir þessu máli í öll þessi ár, frá 1993 og allt fram til dagsins í dag, meiri hluti allan þennan tíma, 15 eða 16 ár. Hann hefur hins vegar aldrei náð málinu fram vegna þeirrar ógæfu Íslendinga á þessari öld og hinni síðustu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið allt of sterkur og getað notað minni hluta sinn á þinginu til að trufla mál af þessu tagi og koma í veg fyrir það að félagshyggjuflokkar og jafnaðarmenn stofni til framfara í samfélaginu.

Þetta fannst mér, forseti, eiga erindi inn í þessa umræðu, sérstaklega af því að (Forseti hringir.) hún hefur af hálfu Sjálfstæðisflokksins snúist um fjaðrir og höfundarrétt.