136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:58]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. dómsmálaráðherra alls góðs í störfum sínum á erfiðum vettvangi næstu vikur og mánuði og veit að hún mun vinna af mikilli samviskusemi.

Ég hef ekki hugsað mér að fara út í sérstakt hnútukast við aðra flokka um hvernig best hefði verið að halda á málinu, hver fortíð þess er o.s.frv og tek undir það sem fram hefur komið að margt er brýnna að gera á þessari stundu en akkúrat það. Í upphafi verð ég þó að segja að frumvarp framsóknarmanna sem hér liggur fyrir um greiðsluaðlögun er kannski það sísta í málinu, því eftir að hafa komið nokkuð að málinu í vetur á vettvangi fyrri ríkisstjórnar lá fyrir að sú leið hentar ekki réttarkerfinu í landinu og nauðsynlegt var að koma málinu úr þeim farvegi sem það hafði verið í hjá viðskiptaráðuneytinu og töluvert þurfti til til að koma því í réttan farveg í dómsmálaráðuneytinu, svo fyllsta öryggis í réttarkerfinu væri gætt. Það var gert með því að leita atbeina réttarfarsnefndar. Slíkar athuganir taka alltaf ákveðinn tíma og stundum er vandinn þegar litið er til laga sem varða mikilvæg réttarfarsleg málefni sá að menn verða að gefa sér ákveðinn tíma.

Stundum finnst mönnum tíminn ekki vera fyrir hendi og halda að einhverjar patentlausnir á t.d. skiptaréttinum og öðrum mikilvægum lagabálkum sem varða öryggi íbúanna í landinu séu mögulegar. En við megum ekki, hvorki á þessari stundu né annarri, falla í þá gryfju að gefa eftir á þeim sviðum. Ekki var vilji til þess hjá fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni og miklu skiptir að málið skuli hafa fengið þann framgang sem það fékk í lok síðustu ríkisstjórnar með því að ráðherrann hélt fast við það að gæta réttaröryggis í landinu. Þetta skiptir máli í umræðunni sem hér er. Þetta er ekki spurning um, eins og látið hefur verið liggja að, einhvers konar uppgjöf eða aumingjaskap af hálfu sjálfstæðismanna heldur miklu frekar virðingu fyrir kerfinu í landinu og akkúrat því að í kjölfar hrunsins eða aðdraganda þessara, að mörgu leyti merkilegu, stjórnarskipta var sem engin kerfi, engar reglur þyrfti að hafa í landinu lengur. Öllu mætti ýta til hliðar einungis til að þjóna einhverjum algerlega óskilgreindum hagsmunum og menn vissu ekki hvað ætti að koma í staðinn, litu bara í hina og þessa áttina og ákveðna festu þurfti til að gefa ekki eftir á þessari braut. Ef það varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum þá skammast ég mín ekki fyrir það fyrir hönd flokksins.

Aðalatriðið í þessu máli er að flokkarnir á þinginu eru flestir sammála um að gera þurfi breytingu í þessa átt. Þessi tvö frumvörp sem helst eru til umræðu hjá mér, annars vegar frumvarp sjálfstæðismanna, sem ég er einn flutningsmaður að, og hins vegar frumvarp dómsmálaráðherra, eru faktískt á sama máli. Það má alveg ímynda sér að viðbæturnar í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra hefðu orðið til í meðförum allsherjarnefndar vegna þess að mál af þessum toga, jafnvel þótt þau séu vel unnin af hálfu réttarfarsnefndar, þroskast í hinni pólitísku umræðu á þinginu og þannig hefur það verið á vettvangi allsherjarnefndar. Þar hafa menn reynt að fara faglega í málin þannig að ég ætla ekki að útiloka að frekari breytingar geti orðið á frumvarpsdrögunum sem fyrir liggja og jafnvel þótt frumvarp sjálfstæðismanna væri eitt hér hefði það getað tekið einhverjum breytingum í þá veru sem frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra felur í sér.

Ég hef ekki lagst sérstaklega yfir breytingarnar í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra og ætla ekki að tjá mig neitt sérstaklega um það umfram það að allar útvíkkanir ber að nálgast af ákveðinni varúð. Gæta þarf að hagsmunum heimilanna í landinu en það þarf að gera af vissri varúð gagnvart réttarörygginu sem fylgir réttarfarslögum af þessum toga.

Undanfarið hef ég svolítið sett mig í samband við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna þess að þar eru brýn verkefni og við vitum að ráðgjafarstofan kallar á einhvers konar úrræði í þá átt sem hér er verið að kynna. Vitað var, þótt ákveðinn tíma hafi tekið að gera sér grein fyrir því, að ákvæðin sem þó eru í gildandi gjaldþrotaskiptalögum henta ekki við þær aðstæður sem skapast þegar einstaklingar lenda í miklum vanda. Það á ekki bara við um þetta hrun, heldur er þetta almennt úrlausnarefni og þetta þarf að gera þannig að það dugi til framtíðar vegna þess að við gerum ekki ráð fyrir því að vera í hruni í framtíðinni og hljótum því að skapa almennar réttarreglur sem duga til lengri tíma.

Ef frumvarp í þessa veru verður að lögum, sem ég á von á að verði, kallar það á viðbótarstarfsmenn hjá ráðgjafarstofunni, eins og ég skil verkefni hennar, a.m.k. einn, jafnvel tvo eða þrjá. Starfsemi ráðgjafarstofunnar hefur verið misörugg og menn hafa ekki alveg áttað sig á því hvernig henni er best fyrir komið í kerfinu. Nú hefur henni verið varpað út í þennan óróa og reynt verður að tryggja starfsemi hennar út þetta ár, eftir því sem mér skilst. Ég held að þegar menn hafa komið sér niður á það hvernig þetta frumvarp verður að lögum, verði þeir líka að gera sér grein fyrir því hvernig eigi að halda utan um framhaldið og koma því fólki sem þetta úrræði á við í réttan farveg. Ég á frekar von á því að fleiri reyni að komast undir úrræði og átta sig á því fyrir hvern það gildir og mér skilst að hjá ráðgjafarstofunni renni menn, eins og við öll, algerlega blint í sjóinn og mér finnst raunar öll umsögn fjármálaráðuneytisins benda til þess að menn renni mjög blint í sjóinn með hvernig úr þessu mun spilast og hvort búist er við fjölgun.

Nú eru 68 manneskjur á biðlista hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og á stuttum tíma hefur fækkað um 30 á listanum. Ómögulegt er að segja hvernig þróunin verður. Auðvitað er þetta töluverður fjöldi en eins og ég segi, þá gerir maður sér enga grein fyrir því hvort þetta er mikið eða lítið miðað við þann vanda sem er. Ég býst við að vandi heimilanna vaxi næstu mánuði en hvort menn munu knýja mjög á um þetta kemur í ljós. Í allri umræðu um málið verður að passa upp á að þetta getur illa hjálpað þeim sem eru komnir í algert þrot. Þetta úrræði hentar ekki þeim sem eru komnir á heljarþröm, heldur fyrst og fremst þeim þar sem þrot er ekki alveg fyrirsjáanlegt og hægt er að hjálpa fólki út úr vanda sem það ræður við að borga. Gæta verður þess að væntingarnar verði ekki of miklar um að strikað verði yfir alvarlega erfiðleika sem ekki er hægt að komast frá.

Í þessum frumvörpum, og ég vitna í frumvarp sjálfstæðismanna, er grein um umsjónarmann og gengið býsna langt í að veita honum ákveðna möguleika eða heimildir og vald umfram það sem við þekkjum um hin gildandi gjaldþrotaskiptalög hvað varðar nauðasamninga. Réttindi skuldara eru verulega aukin með frumvarpinu og gæta verður þess að sjónarmið lánardrottna verði líka höfð í heiðri og kannski það hefur mér þótt erfiðast í þessari umræðu og allri gagnrýninni á gjaldþrotaskiptalögin, sem hefur verið töluverð í vetur, að um leið og þarf að lagfæra gagnvart skuldurunum verður að vera einhvers konar jafnvægi á milli lánardrottna og skuldara í allri lagasetningu. Þannig er það bara. Ekki er hægt að hugsa sér þetta öðruvísi vegna þess að ákveðin eignarréttarsjónarmið koma til sögunnar þegar horft er á réttindi lánardrottna þannig að þetta hefur allt spilað saman með skynsamlegum hætti.

Mér finnst að í þessu frumvarpi hafi það tekist mjög vel og menn stigið skynsamlega til jarðar og mjög á vel við að setja þetta inn í gjaldþrotaskiptalögin með þessum hætti í stað þess að vera með eitthvert sérstakt frumvarp, algerlega út úr kú, þannig að mér finnst vel hafa til tekist.

Sjálfstæðisflokkurinn mun auðvitað styðja þau mál sem eru til þess fallin að bæta kjör þjóðarinnar á þessari erfiðu stundu. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd munum auðvitað gaumgæfa vel frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um leið og við bendum á að frumvarp sjálfstæðismanna er ekki síður hentugt eins og staðan er í dag. En auðvitað mun Sjálfstæðisflokkurinn líta til breytinganna sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til og velta fyrir sér hvort þær dugi eða hvort gera þurfi eitthvað öðruvísi. Aðalatriðið er að þetta er verkefni sem allir flokkar eiga að koma saman að því að leysa og finna lausn sem hentar fólki til langs tíma.

Ég vil ítreka það að við höfum ekki haft tækifæri til að velta fyrir okkur þeirri útvíkkun sem orðið hefur í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra nema að því leyti til og ég ítreka það sem ég sagði áðan, að við höfum ákveðnar áhyggjur af því að gengið sé örlítið lengra en brýn nauðsyn er til.

Hins vegar finnst mér fáránlegt að þetta mál eigi að hafa verið einhver sérstakur ásteytingarsteinn á milli ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að ekkert sem fram kemur í breytingum í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra er til þess fallið að reka fleyg í ríkisstjórnarsamstarf. Það er fáránlegt að þurfa að sitja undir slíku tali. Mjög skemmtilegt þótti að hlusta á alls konar upplýsingar um hvernig frumvarpið hefur verið lagt fram ár eftir ár og ég er viss um að ef við sjálfstæðismenn viljum geti t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal haldið langar ræður um ýmis mál sem hann hefur talið vera mjög til þjóðþrifa, en ég er ekki viss um að þessir réttlátu þingmenn annarra flokka hefðu áhuga á að hlusta á þær ræður allar saman. Mér finnst þetta ekki vera til þess að hjálpa neitt sérstaklega til í umræðunni. Ég vil miklu frekar að við höldum okkur við efnið sem hér er til skoðunar og reynum að vanda okkur við að gera þetta eins vel og hægt er og ég veit að fulltrúar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd munu reyna að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.