136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[15:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvörp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti, tvö frumvörp, annað flutt af ríkisstjórn Íslands, um greiðsluaðlögun, hitt flutt af þingflokki Sjálfstæðisflokksins undir forustu hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra. Hér er reyndar einnig til umfjöllunar frumvarp sem flutt er af þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég ætla nú ekki í ræðu minni að fjalla um það frumvarp af ástæðum sem komið hafa fram hér áður heldur víkja frekar að sjónarmiðum sem varða þessi frumvörp tvö.

Ég vil byrja á að segja að sem meðflutningsmaður þess frumvarps sem hv. þm. Björn Bjarnason er 1. flutningsmaður að hlýt ég að styðja þau meginsjónarmið sem fram koma í því stjórnarfrumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur hér. Annað væri óeðlilegt þar sem það frumvarp er nánast samhljóða frumvarpi okkar sjálfstæðismanna. Þegar frumvarpið er lesið má sjá að það byggist á þeirri vinnu sem hv. þm. Björn Bjarnason lét vinna í dómsmálaráðuneytinu og hjá réttarfarsnefnd sem nýr hæstv. dómsmálaráðherra hefur síðan gert að sínu og er komið í þann frumvarpsbúning sem við ræðum hér. Það væri því einkennilegt ef maður styddi ekki í meginatriðum efnisatriði í stjórnarfrumvarpinu sem hér er til umræðu af þeirri ástæðu að það er í rauninni ljósrit af frumvarpinu sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytur.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að grípa til aðgerða gagnvart þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum eða sjá fram á slíka erfiðleika við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu. Þar undir eru flestir þjóðfélagshópar, en ekki síst tiltölulega ungt fólk, skuldsett, barnafólk sem hefur verið að koma sér þaki yfir höfuðið með tilheyrandi lántökum en horfir nú fram á verri tíma en reiknað var með þegar lánin voru tekin vegna aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífinu.

Vextir á Íslandi eru himinháir eins og þekkt er, verðbólgan er það líka um þessar mundir, sem leiðir til þess að afborganir á verðtryggðum húsnæðislánum og öðrum lánum hækka til mikilla muna. Gengi krónunnar hefur hrunið. Þúsundir manna hafa misst vinnuna og aðrir hafa lækkað í launum. Af þessum ástæðum er fólkið í landinu og heimilin í afar erfiðri stöðu og margir eiga, eins og ég sagði áðan, í greiðsluerfiðleikum eða sjá fram á mjög erfiða tíma í sínum málum. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að grípa til aðgerða eins og þeirra sem við ræðum hér, að reyna að breyta lögum á þann hátt að þeir erfiðleikar og þær þrautir sem fólkið gengur í gegnum verði léttbærari en annars væri.

Hæstv. ríkisstjórn hefur nú kynnt verkefnaskrá sína og í henni eru ákvæði sem mæla fyrir um að grípa til þessara aðgerða. Það eru aðgerðir sem kynntar höfðu verið í fyrri ríkisstjórn. Eins og frumvarp okkar sjálfstæðismanna sýnir höfðum við gripið til aðgerða til þess að koma til móts við þetta fólk og því finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að lýsa yfir jákvæðum huga gagnvart því frumvarpi sem hér er rætt.

Ekki ber allt í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar þess merki að þar fari fremstar í flokki miklar alþýðuhetjur sem vilji heimilunum og fólkinu í landinu gott. Hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa gefið yfirlýsingar um að þeir vilji gera breytingar á skattkerfinu og hækka skatta í landinu. Ég tel að slík áform séu afar óheppileg og alls ekki til þess fallin að bæta stöðu heimilanna og fólksins í landinu. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. dómsmálaráðherra gagnvart því, hvort hæstv. ráðherra, sem vill koma til móts við heimilin í landinu með frumvarpi sínu, telur að ofan í háa vexti, verðbólgu, gengishrun, atvinnuleysi og launalækkun sé það virkilega það sem heimilin í landinu þurfa að ríkið taki stærri hluta af launum fólks í skatta en nú er. Menn hljóta að líta til þessa þegar verið er að tala um að ríkisstjórnin vilji í einu orðinu slá skjaldborg um hagsmuni heimilanna en í hinu orðinu séu áform um að taka stærri hluta af launum þeirra í skatta.

Það er óljóst, og ekki hægt að lesa það af verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar, hver hin raunverulega stefna í skattamálum er enda er hún heldur rýr í roðinu og lítið á hana minnst þar. Það er ágætt að menn ræði þessi mál í samhengi. Það er ekki heppilegt og ekki trúverðugt að segjast í einu orðinu vilja slá skjaldborg um heimilin en lýsa því yfir í öðru orðinu að menn séu reiðubúnir að fara í aðför að þessum sömu heimilum.

Við sjálfstæðismenn höfum viljað og viljum slá skjaldborg um heimilin í landinu. Eins og ég sagði áðan glíma margar fjölskyldur og einstaklingar í landinu við fjárhagserfiðleika og munu gera það á komandi mánuðum og missirum. Vonandi verður það tímabil stutt en þrengingarnar eru miklar. Í núverandi kerfi, miðað við núgildandi lög, er fyrirkomulagið þannig að þeir sem lenda í skuldafeni fá á sig kröfur, gert er hjá þeim fjárnám og krafist gjaldþrotaskipta. Þeir sem lenda í slíkum ógöngum eiga afskaplega erfitt með að koma sér aftur upp á lappirnar. Eins og fyrirkomulagið er núna er mjög hætt við því að þeir sem lenda í þeirri aðstöðu séu dæmdir til fátæktar eða þess að eiga í erfiðleikum með að koma undir sig eignum og lifa eðlilegu lífi ef ekki verða gerðar breytingar á lögum, þar á meðal lögum um gjaldþrotaskipti.

Þetta hefur í för með sér ýmis vandamál, félagsleg vandamál, vandamál tengd atvinnulífinu og vinnumarkaðnum. Margir sem lenda í slíkum áföllum hafa neyðst til að stunda svarta atvinnu í svörtu hagkerfi og það er þróun sem við viljum ekki að eigi sér stað. Ef tækifæri er til þess að breyta lögum til að sporna við þeirri þróun á að grípa til þeirra aðgerða, sérstaklega við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu, þegar fyrirséð er að stór hópur manna og kvenna má búast við að lenda í fjárhagslegum skakkaföllum, erfiðleikum með fjármál sín, og það er það sem verið er að gera hér. Við eigum að hjálpa fólki upp á lappirnar. Við eigum að berjast fyrir því að lögum sé breytt á þann veg að auðveldara verði fyrir fólk að hefja nýtt líf eftir að áföll hafa dunið yfir.

Við sjálfstæðismenn lögðum á það áherslu í stjórnarsamstarfi okkar við Samfylkinguna að gengið yrði til þessara verka. Eins og fram kemur í frumvarpinu, þskj. 497, sem við flytjum undir forustu hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, var farið í yfirgripsmikla vinnu við að semja það frumvarp. Réttarfarsnefnd vann að samningu þess frumvarps ásamt starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins. Þetta er mikið og ítarlegt frumvarp upp á 26 blaðsíður. Ég held að hv. þm. Björn Bjarnason hafi gert býsna nákvæma grein fyrir aðdraganda þess máls.

Ég leyfi mér að mótmæla söguskýringum hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar og Marðar Árnasonar á því hvernig til þessara mála var stofnað. Sá málflutningur er þess eðlis að ég tel ekki ástæðu til að eyða tíma í það sem þar kom fram. Hitt er ljóst að það frumvarp sem ég hef hér gert að umræðuefni, frumvarp sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytjum, var lagt fram í ríkisstjórn Íslands. Það var samþykkt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Það var samþykkt af ráðherrum Samfylkingarinnar. Það var lagt fram í þingflokki okkar sjálfstæðismanna og afgreitt þaðan. Þetta frumvarp var hins vegar tekið í gíslingu í þingflokki Samfylkingarinnar. Samfylkingin, sem núna er í forustu fyrir minnihlutastjórn með Vinstri grænum sem nýtur stuðnings Framsóknarflokksins, treysti sér ekki af einhverjum ástæðum til að fara fram með málið. Á því fengum við sjálfstæðismenn aldrei neinar skýringar. Það er þess vegna sem við leggjum frumvarp okkar fram, bæði vegna efnis málsins og einnig til þess að sýna fram á að málið var klárt og fullbúið í þingflokki okkar, hafði verið afgreitt þaðan út og afgreitt út úr ríkisstjórn, og þess vegna er það flutt hér.

Það eru eftiráskýringar sem ekki standast skoðun þegar hv. þingmenn á borð við Árna Pál Árnason og Mörð Árnason halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þm. Björn Bjarnason, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, hafi dregið lappirnar og sýnt sleifarlag í vinnslu þessa máls. Allt tal um slíkt er í rauninni líka áfellisdómur þessara hv. þingmanna yfir þeim hæstv. dómsmálaráðherra sem flytur stjórnarfrumvarpið á þskj. 507. Sem háttsettur starfsmaður í dómsmálaráðuneytinu geri ég ráð fyrir að núverandi hæstv. dómsmálaráðherra hafi komið að þessari vinnu og þekki hvernig á málum hafi verið haldið. Ég er ekki viss um að sá hæstv. dómsmálaráðherra eigi það skilið að fá gagnrýni eins og hér hefur komið fram frá hv. þingmönnum.

Þingmenn Samfylkingarinnar verða að gefa skýringu á því hvers vegna þeir tóku þetta mál í gíslingu en það er athyglisvert, þegar menn fletta þessum málum tveimur saman, þessum frumvörpum, að langflestar greinar þeirra eru fullkomlega sambærilegar og orðréttar eins. Því má segja að Samfylkingin hafi í þessu máli tekið frumvarp hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, ljósritað það, breytt yfirskriftinni á því og gert örlitlar breytingar á efnisatriðum sem vel hefði mátt gera í meðförum þingsins. Einhverra hluta vegna var það ekki gert en vinnubrögð af þessu tagi eru fyrir neðan allar hellur. Frumvarpið, eins langt og vandað og það er, sýnir að ekki var um að ræða neitt sleifarlag af hálfu hv. þm. Björns Bjarnasonar, þegar hann sat í dómsmálaráðuneytinu, nema síður sé. Það er fráleitt að halda því fram, jafnvel fráleitara en að koma síðan með sama mál undir merkjum Samfylkingarinnar og reyna að eigna sér heiðurinn af því undir þeim formerkjum að fulltrúar vinstri manna hafi unnið að því.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri, hæstv. forseti. Þau verða ekki miklu fleiri enda tíminn liðinn. (Forseti hringir.) Það er ljóst að sem meðflutningsmaður frumvarpsins sem hv. þm. Björn Bjarnason er (Forseti hringir.) 1. flutningsmaður að þá hlýt ég að styðja öll meginsjónarmiðin í frumvarpi hæstv. ráðherra sem eru nákvæmlega hin sömu (Forseti hringir.) og eru hér.