136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[15:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sá hv. þingmaður sem hér veitti andsvar, Árni Páll Árnason, ætti að fara varlega í að saka aðra um gorgeir og valdhroka. Hann ætti frekar að líta í eigin barm og alls ekki gera mönnum hér upp skoðanir. Það voru ekki mín orð og ekkert í ræðu minni gaf tilefni til að álykta sem svo að réttarfarsnefnd eða þeir sem sitja í henni séu einhver partur eða undirdeild í Sjálfstæðisflokknum. Ég bið hv. þingmann að ræða málið frekar efnislega en að vera með sleggjudóma eins og þessa. En það eru kannski óskir sem hv. þingmaður getur ekki orðið við.

Búið er að fara yfir hver aðdragandi þessa máls var. Það var mat manna að þau efnisatriði sem fram koma í þessum lögum heyrðu undir annan ráðherra en dómsmálaráðherra. Og að halda því fram að málið hafi verið pínt upp á dómsmálaráðherrann er beinlínis rangt. Ég geri ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra sem nú situr geti vitnað til um það, en ég veit ekki betur en að þetta frumvarp upp á 26 blaðsíður sem er samhljóða því frumvarpi sem hv. þingmaður vill frekar styðja sé til vitnis um það að sú vinna sem lögð var í það hafi verið ákaflega metnaðarfull og mikil af hálfu fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra og starfsfólks dómsmálaráðuneytisins.

Þegar hv. þingmaður talar um að vinnubrögð fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra hafi verið eitthvað athugaverð felst auðvitað í því gagnrýni af hans hálfu (Forseti hringir.) á starfsmenn dómsmálaráðuneytisins og þá sem að samningu frumvarpsins komu. (Forseti hringir.) En mig langar til að spyrja, hæstv. forseti, hv. þingmann einnar spurningar: (Forseti hringir.) Getur hann upplýst mig um það hvers vegna þingmenn Samfylkingarinnar tóku málið …? (Forseti hringir.)