136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

heilbrigðismál -- stefna í virkjunarmálum.

[11:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það gladdi hjarta mitt mjög að heyra viðtalið við hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að menn ættu að leita allra leiða til að koma þjóðinni út úr þeim kröggum sem uppi eru og í því efni að halda sig ekki við einhverjar kreddur eins og þær að enginn geti rekið virkjanir nema Íslendingar. Í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, sem er mjög umtöluð hér, og í valdatíð Sjálfstæðisflokksins var ýmsum lögum á auðlindasviði breytt á þann veg að hægt er núna að leigja virkjanir til 65 ára. Þetta kemur auðlindinni sjálfri ekkert við vegna þess að í þeim lögum er jafnframt gert ráð fyrir að auðlindin sé í ríkiseigu. (Gripið fram í.) Þetta var samþykkt af hálfu þáverandi ríkisstjórnarflokka.

Ég hlustaði með athygli á hv. þm. Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttur, og botnaði hvorki upp né niður í því hver stefna Framsóknarflokksins er í þessu máli en ég á von á að það skýrist kannski frekar í umræðunni. Ég býst við því að þetta sé eins og venjulega, þ.e. tvö skref til hægri og tvö skref til vinstri eftir því hvað málinu hentar. (Gripið fram í.) Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn Framsóknarflokksins muni leita allra leiða t.d. til að greiða fyrir orkunýtingu á Norðurlandi. Í því efni eiga menn að horfa til þess hvort hægt sé að nýta virkjanirnar þannig að aðrir komi að rekstri þeirra en endilega ríkið. Þetta á líka við um virkjanir á Suðurlandi, Búðarhálsvirkjun og fleiri.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi verða menn að leita allra leiða til að efla þjóðfélagið og mér finnst mjög áhugavert ef vinstri grænir sem nú eru komnir í þessa merku minnihlutastjórn ætli að þvælast fyrir í því að nýta auðlindir þjóðarinnar með skynsamlegum hætti, þvælast fyrir. Ég trúi því hreinlega ekki að hv. þm. Jón Bjarnason, komandi úr kjördæmi þar sem þörfin er (Gripið fram í: Ég trúi því vel.) mikil ætli ekki að leggjast á árarnar með þeim sem vilja veg Íslands sem mestan.