136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því sem fram kom í orðum hv. þingmanns þar sem hann heldur því fram að frumvarpið beri ekki með sér að það hafi verið vandlega unnið. Ég tel þvert á móti að þetta frumvarp sé mjög vel og faglega unnið. Eins og fram kom í máli mínu áðan hefur verið leitað sjónarmiða virtra hagfræðinga og lögfræðinga í þjóðfélaginu, óformlega að vísu eins og ég sagði. Ég held að það komi í ljós í meðförum nefndarinnar á málinu að umsagnaraðilar, þó að ég gefi mér ekkert fyrir fram þá er það skoðun mín að það verði niðurstaðan að þetta frumvarp sé vandlega og vel unnið. Það er ekki sanngjarnt af hálfu hv. þingmanns, finnst mér, að gefa sér það fyrir fram, án þess að málið hafi fengið umfjöllun í nefnd og aðilar fengið tækifæri til að segja sína skoðun á því, að málið sé ekki faglega unnið. Mér finnst það ekki eðlilegt og sanngjarnt að halda því fram eins og hv. þingmaður gerði.