136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

fundarstjórn.

[14:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum dögum getað lesið um það að hæstv. forseti ætli sér ekki að nýta þau bifreiðahlunnindi sem fylgja embættinu. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa upplýst að þeir eigi í ákveðnum vandræðum því að þeir séu allt í einu komnir með svo marga bíla og marga bílstjóra. (Gripið fram í: Ég hef ekki upplýst um það.) Ég lagði fram fyrirspurn 19. desember, um bifreiðahlunnindi ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, og mér reiknast til að það séu u.þ.b. 30 virkir dagar síðan svara átti þeirri fyrirspurn. Það væri óskandi að hæstv. forseti mundi kannski ýta á eftir þessari fyrirspurn um bifreiðahlunnindi almennt og hvort ekki sé orðið tímabært að við fáum að vita hvernig bifreiðahlunnindum annarra en þeirra sem sitja á þingi er háttað.

Þeir einu sem hafa svarað mér, skilanefnd Glitnis, sendu mér svarið beint. Þar kom fram að 1. desember 2008 var einn starfsmaður Glitnisbanka á bifreið í rekstrarleigu á kostnað bankans en 21 af fyrrum starfsmönnum bankans voru á bifreið á kostnað bankans.