136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:36]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða framsögu í þessu máli og styð það heils hugar og það gerum við framsóknarmenn. Ég tel að þetta sé einfalt mál og þurfi kannski ekki að taka mjög langan tíma að afgreiða það úr hv. nefnd. Við þekkjum þessi mál, þau hafa komið til þingsins áður og varða það að stækka Atlantshafsbandalagið. Það er gert að beiðni viðkomandi þjóða og þjóðríkja vegna þess að það er mikil ásókn í að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu. Það kom glögglega í ljós á þeim fundum sem ég sat á mínum stutta ferli sem utanríkisráðherra þegar haldnir voru leiðtogafundir að áhuginn af hálfu Austur-Evrópuþjóða á því að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu er mjög mikill og það er mikilvægt að geta orðið við þessum óskum en eins og hér hefur komið fram þurfa lönd að uppfylla ákveðin skilyrði til að teljast tæk inn í þetta ríkjasamband. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra hefur verið ákveðið ferli í gangi og nú eru það þessar tvær þjóðir, þ.e. Króatía og Albanía, sem um ræðir.

Mín stutta reynsla af því að gegna embætti utanríkisráðherra varð síður en svo til þess að minnka álit mitt á þessu ríkjasambandi og ég sannfærðist um að þetta samstarf lýðræðisþjóða skiptir gríðarlega miklu máli. Í rauninni er það ein af frumskyldum stjórnvalda hverju sinni að tryggja borgurum sínum öryggi að svo miklu leyti sem mögulegt er og þessa leið hafa þær þjóðir sem fengið hafa frelsi í Austur-Evrópu valið í stórum stíl og þannig mun það verða áfram. En eins og hér hefur komið fram í umræðunni eru þjóðir á biðlista og vonandi verður fljótlega hægt að bregðast við óskum þeirra.

Ég vil líka, hæstv. forseti, taka undir það sem kom fram hjá formanni nefndarinnar að það hefði verið áhugavert að fjalla um Kákasussvæðið í hv. nefnd og fá þangað sérfræðinga á sviði málefna Kákasus. Ég og forseti sem nú er að störfum upplifðum og fengum miklar upplýsingar um ástandið þarna í fyrra þegar við sóttum fund ÖSE í Torontó þar sem komu fulltrúar bæði frá Rússlandi og Georgíu, utanríkisráðherra annars vegar og sendiherra hins vegar, og voru með framsögu um sín sjónarmið sem varða það hræðilega ástand sem skapaðist í Suður-Ossetíu. Umræða fór fram daglangt um þetta málefni án þess að hún yrði svo heit að það skapaði erfiðleika. Þetta var vissulega mjög viðkvæm og erfið umræða og mjög tilfinningaþrungin hjá báðum aðilum. Engu að síður tókst að leiða umræðuna þannig að hún varð fyrst og fremst upplýsandi, vissulega varð engin niðurstaða en það var kannski ekki heldur til þess ætlast að svo yrði.

Hæstv. forseti. Þetta er mál sem við munum eflaust geta náð góðri samstöðu um í hv. utanríkismálanefnd. Ég hef þann heiður að sitja í nefndinni núna, að hafa verið kjörin til setu í utanríkismálanefnd eftir að hin nýja ríkisstjórn var mynduð.