136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

lögskráning sjómanna.

290. mál
[14:53]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er vert að spyrja vegna þess að nú eru komin ný skírteini fyrir skipstjórnarmenn, þ.e. svokölluð frístundaskírteini: Hver er munurinn á frístundaskírteini og svokölluðu 30 tonna pungaprófi sem verið hefur í gildi hér til margra ára? Það væri mjög fróðlegt að heyra þó að það snerti ekki kannski þetta frumvarp beint.

Það má líka forvitnast um ábyrgðina sem er skipstjórans að skrá á skipið en hann má fela útgerðarmanninum að gera það. En ef útgerðarmaðurinn gleymir að skrá á skipið eftir að skipið er farið á sjó er ábyrgðin eftir sem áður hjá skipstjóranum og hann fær dóm eða refsingu ef skráning er ekki rétt á skipinu. Það á auðvitað við í fleiri tilfellum varðandi skipstjórnarmenn eins og t.d. um kvótatilfærslu á skip og af skipum sem koma inn á ábyrgð skipstjórans. Skipstjórar vilja náttúrlega bera mikla ábyrgð.

En í þessu tilfelli er staðan sú að þeim er falið að gera það og þeir geta falið útgerðarmanni að lögskrá á skipið. Ef það bregst einhverra hluta vegna, útgerðarmaðurinn gleymir að skrá eða vanrækir það viljandi út af því að viðkomandi aðila vantar kannski réttindi eða eitthvað þess háttar, er skipstjórinn orðinn ábyrgur fyrir því þó svo að úgerðarmaðurinn hafi átt að sjá um það.

Það eru þessar reglugerðir sem eru alltaf stóra spurningin í svona tilfellum. Þess vegna spyr ég sérstaklega um skipstjórnarréttindi, þessi venjulegu, þessi svokölluðu 30 tonna pungapróf, og frístundaskírteinin.