136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[14:55]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt. Okkur hæstv. iðnaðarráðherra greinir almennt á um ákveðna þætti um álversuppbyggingu á landinu. Ljóst er að enginn fer í grafgötur með það. Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er hins vegar sagt að engin áform séu um ný álver á starfstíma hennar. Ég hef kosið að líta svo á að innan þess starfstíma verði hvorki reist álver á Bakka né í Helguvík. Þetta hef ég sagt í viðtölum. Ég hef líka sagt í viðtölum — og við það vil ég standa þann tíma sem ég sit í ríkisstjórn — að taka þurfi á varðandi atvinnuuppbygginguna. Suðurnesin og Þingeyjarsýslur eru þar í sérstökum brennipunkti en líka höfuðborgarsvæðið.

Ég nefndi í viðtali 600 störf í byggingariðnaði sem tapast ef ekki verður hægt að ljúka byggingu tónlistarhússins. Ég tel mjög mikilvægt að vernda þau störf en það breytir því ekki að ég tel mjög mikilvægt að vernda störf, t.d. níu vísindakvenna sem starfa í rannsóknarstöðinni í Sandgerði við að rannsaka botndýr á Íslandsmiðum. Ég mun standa vörð um þau störf sem heyra undir ráðuneyti mitt og mun halda áfram að leggja mitt að mörkum varðandi nýja atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Ég segi hins vegar að reynslan frá álversuppbyggingu í Fjarðabyggð hræðir, hún gerir það. Reynslan af stóriðjuframkvæmdum almennt hér á landi sýnir að þær hafa ekki haft þau miklu jákvæðu samfélagsáhrif sem gert hafði verið ráð fyrir og talsmenn þeirra vonuðu. Við getum t.d. talað um íbúaþróun á Austurlandi. Í landsfjórðungnum hefur fækkað ört síðan framkvæmdum við álverið lauk og íbúaspá sem gert var ráð fyrir í upphafi gekk ekki eftir. Síðan höfum við nýlega grein Indriða H. Þorlákssonar, sem mér finnst vera afar vel unnin og ég tek mark á, sem sýnir að þjóðhagslega hliðin á málinu sé mjög málum blandin og sáralítið verði eftir af arði stóriðjufyrirtækja við þessar aðstæður á Íslandi. Með öðrum orðum: Í mínum huga mælir allt með því að við förum í annars konar atvinnuuppbyggingu en álver. Í því sambandi bendi ég á fjöldann allan af tillögum sem ég hef vikið að, bæði í þingmálum og í ræðum.

Ég vil líka segja af því að ég lokaði máli mínu hér áðan í utandagskrárumræðum um álverið á Bakka á losunarmálunum og loftslagssamningnum og skuldbindingum okkar. Útlit er fyrir að losun koldíoxíðs frá stóriðju sem fellur undir hið svokallaða íslenska ákvæði muni verða um 1.320 þús. tonn á ári frá fjórum verksmiðjum. Þá er verið að tala um Járnblendiverksmiðjuna, álver Rio Tinto í Straumsvík, Norðurál á Grundartanga og Fjarðarál á Reyðarfirði. Miðað við að Fjarðarál sé komið í fulla framleiðslu samkvæmt starfsleyfi — það er sem sagt miðað við fulla framleiðslu í Fjarðaráli — og ef Straumsvík eykur framleiðslu sína um 40 þús. tonn sem áætlanir og áform eru um eykst losunin í 1.380 þús. tonn á ári.

Íslenska ákvæðið er með þak sem svarar til 1.600 þús. tonna á ári að meðaltali til 2012. Þetta þýðir að þegar verksmiðjurnar fjórar sem þegar eru starfandi eru komnar í fullan rekstur er eftir 280 þús. tonna kvóti af CO 2 en það þýðir að rúm er fyrir framleiðslu 187 þús. tonna af áli en ekki meira. Í Helguvík er verið að tala um 360 þús. tonna álver og 346 þús. tonna álver á Bakka. Með öðrum orðum: Skuldbindingar okkar samkvæmt loftslagssamningnum sem undirritaðar voru í Ríó 1992, Kyoto 1997 og Marrakesh 2002, tala allar einu máli. Við verðum komin upp undir þakið 2012.

Það er sem sagt á vettvangi loftslagssamningsins í dag að ef stóru iðnríkin eins og Bandaríkin koma með í samninginn, sem allir vona og eiga að leggja mjög mikla áherslu á, verður þeim mun meiri samdráttur að eiga sér stað í Evrópusambandsríkjunum. Við höfum ákveðið að vera með Evrópusambandinu í þessum samningaviðræðum. Við höfum samþykkt hér á Alþingi að við ætlum að fara inn í viðskiptakerfi þeirra með losunarheimildir og vitum að svigrúmið fyrir stóriðju í þeirri bólu sem rúmar stóriðju í Evrópusambandslöndunum og EES-löndunum — það verður krafa um samdrátt. Með öðrum orðum: Við verðum að fara að horfast í augu við að skuldbindingar okkar knýja okkur til að fara út í annars konar atvinnuuppbyggingu en stóriðju. Þetta eru meginsjónarmið mín í málinu, hæstv. forseti.