136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:14]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi nýtingu orkuauðlindanna byggist framtíðarsýn mín á meginreglum umhverfisréttar, ekki hvað síst varúðarreglunni. Hún gengur út á það að okkur beri að gæta að því að raska ekki lífkerfum jarðarinnar þó svo að við gerum kröfu um ákveðin lífsgæði. Ég held að við megum aldrei gleyma þessari hugmyndafræði um varúðarregluna og varúðarnálgunina. Við höfum ekki sýnt varúðarnálgun í þeim virkjunarframkvæmdum sem við höfum farið í á jarðhitasvæðunum okkar. Þessari fullyrðingu minni til staðfestingar nefni ég brennisteinsvetnismengun. Nú er svo komið að hún er orðin óviðunandi á svæðum nálægt Hellisheiðarvirkjun og hér á höfuðborgarsvæðinu er hún komin langt yfir heilsuverndarmörk.

Nú er það þannig að gamalt fólk, fólk sem á í erfiðleikum vegna öndunarsjúkdóma eða öndunarfæraörðugleika og lítil börn eru í stórri hættu vegna brennisteinsvetnismengunar frá þeim holum sem búið er að bora uppi í Hellisheiðarvirkjun. Þessi mengun kemur líka úr hveravirkjununum á Reykjanesi. Við getum ekki horft fram hjá þessum staðreyndum þegar við ákveðum að virkja. Við verðum að taka þetta með inn í vinkilinn okkar og ef við gerum það og ef við hugsum líka um loftslagsmálin þá stöndum við frammi fyrir því sem ég sagði áðan að okkur er nauðugur einn kostur að horfa til annarrar atvinnuuppbyggingar en þeirrar orkufreku stóriðju sem árátta hefur verið hjá ákveðnum þingmönnum og stjórnmálaflokkum að byggja upp hingað til. Vilji hv. þm. Kristján Þór Júlíusson staðfesta þennan meirihlutavilja sem hann segir að sé til staðar varðandi stóriðjuuppbyggingu og hvalveiðar þá fer hann bara í kosningar með það, með þau mál. Ég fer í kosningar með önnur mál, aðra vinkla, aðra framtíðarsýn og við fáum mat kjósenda og þjóðarinnar á sjónarmiðum okkar í kosningum.

Varðandi Kyoto-ákvæðið vil ég segja við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur: Ég er ekki að tala um (Forseti hringir.) annað en að horfast í augu við að það var heimilað að við losuðum (Forseti hringir.) jafnmikið og ákvæðið segir til um. Ég er hins vegar vantrúuð á að við fáum frekari undanþágur frá losunarheimildunum. (Forseti hringir.) Þess vegna getum við ekki, að mínu mati, farið í frekari stóriðjuuppbyggingu.