136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

aðild að ESB.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég las nú a.m.k. út úr orðum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar engu minni ástarjátningu í minn garð og Samfylkingarinnar en frá Grétari Mar Jónssyni.

Ég veit að það er áhyggjuefni hjá hv. þingmanni hversu seint og illa gekk í samstarfinu með Sjálfstæðisflokknum varðandi Evrópumálin. Ég tók eftir því að í sjónvarpsþætti á dögunum, í kringum áramótin, virtist hv. þingmaður hafa skipt um skoðun og var skyndilega orðinn Evrópusinni. Nú finn ég það hins vegar á honum að hann er búinn að snúast aftur og þannig tekst Sjálfstæðisflokknum að fara hring eftir hring í Evrópumálunum.

Frá því er skemmst að segja að í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn komst enginn hænufet með Evrópumálin. Það voru uppi tvær, eftir atvikum þrjár, skoðanir og Sjálfstæðisflokkurinn logaði í illdeilum vegna Evrópumálsins. (Gripið fram í: Og gerir það enn.) Fyrrverandi dómsmálaráðherra lýsti því jafnvel yfir á heimasíðu sinni að hætta væri á því að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna málsins.

Núverandi stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem situr, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar með stuðningi Framsóknarflokksins, tekur svo á þessu máli með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er því lýst yfir að það eigi að breyta stjórnarskrá á þessu þingi með þeim hætti að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar. Eins og hv. þingmaður veit er það forsenda þess að hægt sé að ganga í Evrópusambandið með fullri reisn.

Í öðru lagi er líka lögð fram tillaga um að sérstakur háttur verði hafður á við að breyta stjórnarskrá í framtíðinni þannig að atkvæðagreiðsla á Alþingi dugi, síðan komi alþingiskosningar og breytingin staðfest með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er að vísu þannig að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi lýst fylgi við bæði þessi mál, m.a. staðið að gerð frumvarps um hið síðarnefnda, hefur hann líka hlaupist frá því. Alveg eins og með allt sem tengist Evrópu hefur hann enga fasta skoðun. (Forseti hringir.) Það var kannski fyrst og fremst það sem gerði það að verkum að vegna innri misklíðar er (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn ekki stjórntækur flokkur í dag. (Gripið fram í: Svaraðu nú …)