136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:22]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé allrar athygli vert. Það er góðra gjalda vert að það sé lagt fram ekki síst á þessum tímum sem tillaga og efni til athugunar til þess að greiða fyrir vanda þeirra einstaklinga sem lent hafa í fjárhagslegum vandræðum.

Mig langar samt til þess að inna hv. þm. Kristin H. Gunnarsson eftir því hvort hann hafi farið í gegnum þær fjárhagslegu afleiðingar sem þetta frumvarp hefði. Ég veit að hann hefur takmarkaða möguleika á því en samt sem áður er hann býsna glúrinn og þekkir til lánastofnana. Það væri því áhugavert að vita hvort hann hefur farið í gegnum það hvaða fjárhagslegar afleiðingar þetta mundi hafa fyrir þær lánastofnanir sem hér er um að ræða og hvaða áhrif það mundi hafa á efnahag þeirra.

Ég tel ekki að rifist verði um höfundarrétt eins og hv. þingmaður nefndi. En hins vegar held ég að það sé mikilsvert að þetta sé skoðað í samhengi við þau frumvörp sem þegar liggja fyrir, bæði um skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun. Þau frumvörp fóru til allsherjarnefndar en hv. þingmaður leggur til að þetta mál fari til félags- og trygginganefndar. En ég held að það ætti að skoða þessi frumvörp öll saman og meta hvort þarna séu hugsanlega einhver úrræði sem (Forseti hringir.) taka þyrfti þá til athugunar í samhengi við frumvörpin.