136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:39]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektir við málið og tek undir það sem fram kom í máli hans að það er ákaflega mikilvægt að þeir sem komnir eru í vandræði fái aðstoð við að greina vanda sinn, átta sig á honum og finni leiðir til þess að vinna bug á honum. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að oft þarf ekki mikið meira til þess að koma málunum í það horf að þau verði viðráðanleg á tilteknum tíma.

Ég held að þetta frumvarp hjálpi til við að finna svona lausnir því að oft þarf að skapa ákveðið skjól og möguleika og frumvarpinu er ætlað að gera það. Það er náttúrlega hverjum manni mikilvægast að geta búið við sæmilegt öryggi um heimili sitt og fjölskyldu sinnar. Ef það skapast um einhverja fyrirsjáanlega framtíð held ég að mörgum líði mun betur en í dag þegar þeir horfa á skuldir sínar og reikninga koma og ráða ekki við það.

Ég tek líka undir það sem hv. þingmaður sagði um svartsýnina. Mér finnst, þó að ég vilji á engan hátt draga úr þeim mikla vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir, hafa verið gengið allt of langt, sérstaklega á fjölmiðlum landsins, í því að draga upp dökka mynd og fylla fólk svartsýni. Mér hefur stundum fundist að þeir sem eru á þessum fjölmiðlum sem eru allir hér í Reykjavík, hafi aldrei lent í neinum erfiðleikum á síðustu 15–20 árum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er ólíkt því sem fólk á landsbyggðinni hefur mátt reyna. Það hefur lent í áföllum í atvinnumálum hvað eftir annað og er orðið vant því að takast á við þau og sjá fram úr þeim. Mér finnst að það þurfi kannski að hjálpa þjóðinni, hjálpa henni að sjá fram úr þeim vanda sem við erum í í dag og ég vil biðja fjölmiðla landsins að hjálpa til við (Forseti hringir.) það.