136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ekki er ofsagt að íslensk þjóð og íslenskt samfélag standi á miklum tímamótum um þessar mundir. Segja má að nú taki við tímabil þar sem þjóðin sjálf á mikilvægar ákvarðanir fyrir höndum. Þá er gott að hafa í huga hið fornkveðna: Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvað olli efnahagshruninu.

Vafalaust erum við ekki öll nákvæmlega sammála um hvaða orsakir liggja þar að baki. Sumir segja: Bankarnir fóru offari, það eru bankarnir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er. Þess sér m.a. stað í viðtali sem tekið var, og sagt er frá í fjölmiðlum í dag, þar sem hv. málshefjandi, hv. þm. Geir H. Haarde, segir og viðurkennir að það hafi verið mistök að íslenska útrásin varð jafnmikil og raun bar vitni, en það séu hins vegar mistök bankanna.

Engu að síður var það nú svo að hv. málshefjandi fór sem forsætisráðherra í sérstakan leiðangur til að tala máli þessarar sömu útrásar og til að segja erlendum aðilum að hér stæði bankakerfið traustum fótum. Það er líka mikilvægt að mínu viti að hafa í huga að stefna og stefnuleysi stjórnvalda á mikinn þátt í því að stoðir íslensks efnahagslífs stóðust ekki þá atlögu sem varð með hruni bankanna. Nýfrjálshyggjan, einkavæðingin, afnám hvers konar regluverks, afskiptaleysi stjórnvalda, mistök í efnahagsstjórninni, þenslan, hin mikla neysla, viðskiptahallinn og skattalækkanir á tímum þegar þensla var mikil. Allt þetta hafði að sjálfsögðu áhrif á hvernig síðan fór í efnahagslífinu hjá okkur.

Afleiðingarnar eru hrun í tekjum einstaklinga, yfirvofandi fjöldagjaldþrot fjölskyldna, aukin skuldsetning bæði atvinnulífs og heimilanna, greiðsluerfiðleikar og mikið atvinnuleysi sem við horfumst í augu við og er kannski eitt stærsta og alvarlegasta vandamálið sem við þurfum að takast á við um þessar mundir.

Viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins er þess vegna ekki sérstaklega björgulegur. Samfélagið er í raun brotið. Mér virðist, því miður, að í umræðum þessarar viku í þinginu hafi ekki komið fram miklar áhyggjur af þessari stöðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins, ekki mikill skilningur á vanda heimilanna og atvinnulífsins, á atvinnuleysinu eða kaupmáttarskerðingu venjulegs fólks. En hvergi má hrófla við sendimönnum flokksins hér og þar um kerfið sem þó bera ríka ábyrgð á hruninu.

Nú ríður á að læra af reynslunni. Nú ríður á að við uppbyggingu samfélagsins séu önnur gildi látin ráða og ekki sé bara byggt upp nákvæmlega eins samfélag á sömu brauðfótum og var hér fyrir hrunið. Það ríður á að byggja hér upp samfélag á grundvelli jöfnuðar, réttlætis og samvinnu. Það hefur verið kvartað yfir því, m.a. af formannsframbjóðanda í Sjálfstæðisflokknum, að nú horfi til þess að ríkið verði alltumlykjandi í atvinnulífinu, eins og hann komst að orði. Það er hins vegar mikilvægt að við förum okkur varlega í uppbyggingunni og vitum nákvæmlega hvað við erum að gera, og hlutverk hins opinbera, samfélagsins alls, verður ákaflega þýðingarmikið í því. (Gripið fram í.) Nú er mikilvægt að örva atvinnulífið og atvinnustarfsemina, m.a. með mannaflsfrekum framkvæmdum og starfsemi, koma í veg fyrir að fjölskyldur þurfi að yfirgefa heimili sín og jafnvel landið og endurheimta traust í samfélaginu á stofnanir þess inn á við og út á við. (Forseti hringir.) Það verður ekki gert með gömlu áhöfninni sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á. (Forseti hringir.) Hér þarf ný gildi, nýtt og endurmótað Ísland (Forseti hringir.) á félagslegum grunni. (Forseti hringir.)