136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ummæli ráðherra og beiðnir um utandagskrárumræður.

[15:38]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst miðað við það svar sem hæstv. heilbrigðisráðherra gaf hér við fyrirspurn að full ástæða er til að hann fari að verða við þeim beiðnum um utandagskrárumræðu sem legið hafa fyrir um langa hríð í þinginu og hæstv. ráðherra hefur ekki treyst sér til að verða við. Annars vegar beiðni frá hv. þm. Eygló Harðardóttur, um heilbrigðisþjónustu, sem hefur legið hér fyrir síðan 20. janúar, og hins vegar frá hv. þm. Ástu Möller, um ráðstafanir heilbrigðisráðherra til að ná markmiðum fjárlaga 2009 um lækkun útgjalda í heilbrigðisþjónustunni.

Einhverra hluta vegna hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ekki treyst sér til að verða við þessum beiðnum og ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort hann fari ekki að óska eftir því við heilbrigðisráðherra að hann verði við skyldum sínum sem ráðherra og ræði þessi mál í þinginu. Mér (Forseti hringir.) heyrist vera full þörf á því eftir þau svör sem hér hafa verið gefin.