136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur ekki heyrst að eftirspurn væri eftir því af hálfu Framsóknarflokksins að stjórnmálamenn hefðu skoðanir á efnisatriðum stjórnarskrárinnar, en ég hef auðvitað tekið þátt í stjórnarskrárvinnu undanfarin ár og ýmsar hugmyndir hafa verið þar á lofti og verið ræddar og ég tel að full ástæða sé til þess að halda þeirri vinnu áfram.

Í stjórnarskrárnefndinni sem var undir forustu Jóns Kristjánssonar var verið að velta upp mjög mörgum þáttum og sú nefnd setti sér það markmið að fara í heildarendurskoðun. Ég held að kannski væri nær að taka það starf upp aftur og halda því áfram, fylgja því eftir. Ég tek þó fram að mér finnst hugmyndin um stjórnlagaþing ekkert fráleit, ég vara menn bara við að fara út í breytingar af þessu tagi í einhverju óðagoti núna þegar við höfum mjög skamman tíma til að ræða þessi mál, þegar við höfum skamman tíma til umhugsunar, skamman tíma til þess að sjá fyrir okkur hvernig hlutirnir eiga að virka.

Ég bendi á að við erum að fást við fjölmörg önnur mál hér á þinginu sem meira liggur á. Ég leyfi mér að segja það vegna þess að ég held að breytingar á stjórnarskrá Íslands muni ekki hjálpa Íslendingum út úr þeim efnahagsógöngum sem við eigum við að stríða í dag.