136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hv. þm. Birgir Ármannsson telji að verið sé að vinna þetta í ákveðnu óðagoti þar sem þetta hefur væntanlega ekki verið mjög mikið uppi á borðinu innan hans flokks. Hins vegar hefur náttúrlega mikil vinna farið fram innan Framsóknarflokksins. Við nutum góðs af þeirri vinnu sem Jón Kristjánsson leiddi í síðustu stjórnarskrárnefnd og erum að nýta hans reynslu og fleiri sem komu nálægt vinnslu á þessu frumvarpi til þess einmitt að leggja þessa tillögu fram því að niðurstaða þeirra var sú að svo lengi sem þær hugmyndir sem væru uppi á borðinu ógnuðu valdi Sjálfstæðisflokksins þá kæmust engar breytingar hérna í gegnum þingið þannig að þess vegna þyrfti að taka þetta frá Alþingi og fela stjórnlagaþingi í hendur eða fela breytingar á stjórnarskránni í hendur þjóðarinnar.

Það komu líka fram ýmsar vangaveltur hjá hv. þingmanni varðandi útfærsluna og þá sérstaklega um fjölda þingfulltrúa. Við höfum svo sem alveg sagt það að við séum alveg tilbúin (Forseti hringir.) að skoða fulltrúatalið. Ég hef hins vegar miklar áhyggju af hugmyndum þingmannsins um fjölda meðmælenda og hvort hann sé þá að hugsa það að takmarka þá (Forseti hringir.) lýðræðið og þá sem geta boðið sig fram.