136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efa það ekki að framsóknarmenn hafa rætt þessi mál mikið í sínum röðum. Það hins vegar er kannski fremur ófullnægjandi undirbúningur undir það að Alþingi allt taki afstöðu til þessara mála, með fullri virðingu fyrir því hópastarfi sem á sér stað innan Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Þakka þér fyrir.) Ég er alveg sannfærður um að ýmsar gagnlegar ábendingar hafi komið fram í þessu hópastarfi frá Jóni Kristjánssyni sem þekkir vel til þessara mála og tel, eins og ég sagði áðan, að það komi vel til greina og sé í rauninni sjálfsagt að fara í endurskoðun á ýmsum efnisatriðum stjórnarskrárinnar.

Það er bara ekki það sem við erum að tala um í þessu frumvarpi. Frumvarpið snýst ekki um efnisatriðin af því að það á að gera stjórnlagaþingið sjálfráða um hvaða efnisatriði það tekur fyrir. (Gripið fram í.) Við getum því talað hér fram og til baka um einstök efnisatriði en það snertir ekki þetta þingmál (Forseti hringir.) af því að það snýst um aðferð en ekki efni.