136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég átti þess ekki kost að hlusta á fyrri hluta ræðu hv. þingmanns en af síðari hlutanum dró ég þá ályktun að hann vildi líta öðruvísi á málin en gert er í þessu frumvarpi og senda í raun og veru þetta frumvarp til kjararáðs til þess að ákvarða um heildarkjör þingmanna. Nú er þetta sjónarmið, eins og kurteis vinur minn segir um þá hluti sem honum geðjast lítt að, ákveðið viðhorf. En það sem þarf að svara hér er auðvitað það hvort þingmaðurinn styður þessar breytingar í sjálfu sér. Styður hann það að þingmenn og ráðherrar — ég ætla ekki að fara út í aðra þá sem þarna er um fjallað eða sem upphaflegu lögin fjölluðu um — taki lífeyri á sama hátt og opinberir starfsmenn, sem þeir eru auðvitað ekki, en þeir þiggja laun hjá ríkinu?

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hv. þingmaður var einn af þeim 30 sem á sínum tíma, árið 2003, greiddi atkvæði með þessu frumvarpi. Þeir eru ekki orðnir margir eftir hér á þinginu af einhverjum ástæðum, hafa tínst út, en hv. þm. Bjarni Benediktsson er í þeim göfuga hópi þingmanna sem greiddi þessu frumvarpi frá 2003 atkvæði á sínum tíma. Ef hann hefur skipt um skoðun væri í fyrsta lagi gott að heyra það og í öðru lagi að vita af hverju hann skipti um skoðun. Var það af sannfæringu sem breyttist eða voru það aðstæður sem urðu öðruvísi eða getur verið að formannsframbjóðandinn, hv. þingmaður, sé að fara að pólitískum hentugleikum?