136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir málefnalega ræðu þar sem hann fór ágætlega yfir málið. Ég ætla að játa að ég eins og hv. þingmaður var á þingi árið 2003 þar sem umdeild lagasetning var samþykkt og ég tel í ljósi reynslunnar að þar hafi verið gerð mistök og það er enginn minni maður af því að játa slíkt, en ég mundi gjarnan vilja heyra frá öðrum þingmönnum sem að þessu stóðu á þeim tíma hvaða hug þeir bera til þess gjörnings sem þá var gerður.

Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni að mér finnst hallærislegt að ræða starfskjör mín hér á þingi. Mér finnst hallærislegt að ræða um hver eftirlaun mín eigi að vera og ég tel að aðrir séu betur til þess fallnir að ræða um mín kjör en ég sjálfur. Þess vegna er það dálítið asnalegt að standa hér í púlti Alþingis og tala um sjálfan sig og því tek ég undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni, það á að færa þetta úr höndum þingmanna.

Hv. þingmaður segir að hann vilji skoða þessi eftirlaun, þetta frumvarp sem hluta af starfskjörum. Í ljósi þess að það er verið að draga úr réttindum fólks á almennum launamarkaði og það er verið að lækka laun þeirra, og það er vissulega verið að lækka hér laun og réttindi þingmanna, þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Á tímum sem þessum á þá ekki það sama að gilda um okkur þingmenn og aðra launamenn, þegar réttindi þeirra eru að minnka og laun þeirra eru að lækka? Eiga sömu hlutir ekki að ganga yfir okkur? Það er líka verið að skerða kjör opinberra starfsmanna með því að draga úr yfirvinnu.

Mér finnst að við þingmenn getum ekki verið eitthvert eyland í þessu og því get ekki tekið undir með hv. þingmanni að ég vilji á þessum tímum blanda kjararáði (Forseti hringir.) inn í eftirlaunin sem slík með það að markmiði að hækka laun þingmanna eins og nú árar í samfélaginu.