136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:44]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. framsögumaður, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, sagði: Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr. Það rifjar upp að fyrir rúmum 20 árum voru sjálfstæðismenn á Vestfjörðum með þetta slagorð sem yfirskrift á stefnu sinni og settu á forsíðu kosningablaðs sín. En eitthvað skolaðist til í prentuninni þannig að þegar blaðið kom út stóð þar skýrum stöfum: „Stefna Sjálfstæðisflokksins er skyr“.

Ef við athugum málið er það kannski ekki svo slæm stefna vegna þess að skyrið þýðir að menn vilja íslenskan landbúnað. Menn vilja hafa landbúnaðinn í landinu sem veitir mörgum störf. (Gripið fram í.) Það tryggir okkur að vissu leyti sjálfstæði að geta brauðfætt þjóðina og útvegað henni mat eftir því sem þörf er á á hverjum tíma og verið ekki að öllu leyti háður erlendum þjóðum í þeim efnum sem er afar hættulegt mál, eins og menn þekkja bæði hér og víðar að. Má þá hafa í huga að um það bil helmingur af hitaeiningaþörf landsmanna er uppfylltur með innflutningi sem er hærra hlutfall en í flestum ef ekki öllum öðrum löndum Evrópusambandsins. Við höfum gengið lengra í þeim efnum en margar ef ekki allar þjóðir þess. Ég tel því enga þörf á að ganga lengra í þeim efnum og stofna í hættu störfum hundruða Íslendinga um allt land.

En flokkarnir sem hér takast á búa báðir við trúverðugleikavandamál í Evrópusambandsmálum. Vinstri grænir eru á móti aðild að Evrópusambandinu en gáfu eftir þegar valdastóllinn var í boði, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu en þegar Samfylkingin hótaði að henda þeim út úr ríkisstjórninni fóru þeir að bakka og gefa því undir fótinn að þeir væru tilbúnir að sækja um. (Gripið fram í.) Nú er búið að ýta þeim út úr stjórninni (Forseti hringir.) og andstaða þeirra styrkist aftur á nýjan leik en kjósendur beggja þessara flokka hljóta að spyrja: Hversu trúverðugir eru þeir í andstöðu sinni, virðulegi forseti?