136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:19]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við fylgjum eftir og ýtum áfram á framlenginguna á undanþáguákvæðinu um losun á heimsvísu, ákvæði 14/CP.7. Það er verið að tala um hækkun meðalhita í lofthjúpnum og eitt af því sem fólk virðist einfaldlega ekki alltaf gera sér grein fyrir er hvað veldur þessari hækkun hita í lofthjúpnum. Það eru eldgos, skógareldar, hlýnun jarðar og einnig tel ég mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að sólgosin hafa aukist mjög mikið undanfarin ár. Ég hef upplýsingar frá geimvísindastofnuninni NASA um að það var meira að segja svo að það urðu pólskipti á sólinni og það mynduðust tveir norðurpólar. Í framhaldi af því varð enn þá meiri aukning á sólgosum og alvarlegum sólgosum. Það eru ýmsir þættir sem koma til við hlýnun jarðar sem við ráðum ekkert við. Auðvitað eigum við alltaf að hugsa um það að reyna að koma eins vel fram við jörðina og lofthjúpinn og frekast má vera. En við megum alls ekki gleyma þessum þáttum því að þeir eru gífurlega mikilvægir. Það er eitt af því sem ég mundi benda fulltrúum okkar á að fara með inn á þessa ráðstefnu, að láta kanna hvað þarna er í húfi vegna þess að þetta er svo stór partur af öllu því sem við þurfum að passa upp á.

Við erum í erfiðleikum á Íslandi og við þurfum að hafa atvinnu og við þurfum að skapa hana með þeim ákvæðum innan vissra marka sem skipta máli. En við megum heldur ekki hlaupa frá því að átta okkur á að hlýnun jarðar er ekki bara af manna völdum. Hún er af ýmsum öðrum orsökum og það er eitthvað sem við (Forseti hringir.) þurfum auðvitað að passa upp á.