136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa komið með þessa fyrirspurn og vakið athygli á þessu brýna máli vegna þess að allt of lengi hefur þessa yfirsýn skort og það var líka svo fyrir hið svokallaða bankahrun og þá gjaldeyriskreppu og erfiðleika sem skullu á okkur í haust. Allt of lengi hefur okkur skort yfirsýn yfir stöðu t.d. fjölskyldnanna í landinu og einstakra hópa þar sem skoðað er heildrænt hver staða þeirra raunverulega er í samfélaginu. Þessir hópar eru t.d. ungu barnafjölskyldurnar, þær eru t.d. með gríðarlegar álögur í formi ýmissa gjalda, leikskólagjalda, matargjalda í skólum o.s.frv. og síðan skerða mögulega tekjur þeirra barnabætur og vaxtabætur. Það vantar algjörlega að skoða þetta heildarsamhengi íslensku barnafjölskyldnanna og ég ber miklar væntingar til velferðarvaktarinnar í þessu sambandi sem og auðvitað að skoða heildarhagsmuni annarra hópa. Ég fagna því mjög að þetta sé komið á laggirnar og (Forseti hringir.) hversu ötullega hæstv. ráðherra hefur unnið að því að fylgja þessu framtaki eftir.