136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

tónlistar- og ráðstefnuhús.

[10:35]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð í þessari fyrirspurn. Ég held að þó að þessi framkvæmd sé auðvitað stór og mikill biti þá stöndum við líka frammi fyrir því að það er dýrara að klára ekki húsið en að geyma það fyrir utan það að hálfklárað hús í miðborg Reykjavíkur yrði ekki fýsilegur minnisvarði, að mínu mati, um þá tíma sem við göngum nú í gegnum eins og stundum hefur verið nefnt.

Það er rétt að hér hanga 600 störf á spýtunni. Það fer auðvitað mikið fé í húsið en því má ekki gleyma, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi áðan, að ekki er verið að auka skuldbindingar ríkis eða borgar, þær haldast óbreyttar í framlagi á ári til hússins. Það er líka mikilvægt að muna að þetta er gamall draumur og við þessa byggingu var farið í það að reisa mjög glæsilegt hús en það verður líka reynt að spara sem mest má í útfærslum. Ég vil líka minna á að það verður reynt, gangi þetta eftir, að vísa verkinu að eins miklu leyti og unnt er til innlendra starfskrafta sem er mjög mikilvægt á þeim tímum sem við nú lifum.

Reykjavíkurborg fjallar um málið á þessari stundu, að því er mér skilst, og vonandi mun það geta gengið eftir á þennan hátt. Það verður líka hægt á framkvæmdum ef þetta gengur eftir, unnið verður á dagvöktum, og þannig nýtist þetta tækifæri líka til að viðhalda störfum auk þess að efla menningarstarf í landinu.