136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:38]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Að gefnu tilefni sé ég ástæðu til að ræða aðeins um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og er rétt að benda á að það gengur auðvitað ekki að horfa fram hjá því þegar fólk talar um Evrópusambandið, eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði, að auðvitað skipta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar miklu máli og hvernig samningur er gerður hlýtur að taka mið af því hvort við ráðum yfir auðlindum okkar eða ekki.

Lagabreytingar til þess að liðka til fyrir hugsanlegri inngöngu eða aðild að Evrópusambandinu eru með þeim hætti að fara verður varlega og fara fetið í því og gera ekki neinar vitleysur. Við þurfum auðvitað að vanda lagagerð eins og lagt er til. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta en ég vara þó við því að við gerum einhver mistök í lagasetningu hvað þetta varðar. Við verðum náttúrlega að taka mið af einu við lagagerð og það er að virða álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, við þurfum að tryggja að það verði gert gagnvart auðlindunum og fiskinum í sjónum sérstaklega, en það virðist blasa við að núverandi ríkisstjórn ætli ekki að taka á mannréttindabrotum á íslenskum sjómönnum. Þess vegna er maður mjög efins um á hvaða vegferð við erum, á hvaða leið við erum. En ég vara við, við skulum passa okkur og gæta okkar hvað þessi mál varðar.