136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég á dálítið erfitt með að svara spurningum fyrir aðra. Það var svo sem ekki á mínu verksviði að breyta samningi ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands um peningamálastefnuna frá 2001, sem hv. þingmaður vék að. Þar hafa vegist á sjónarmið, annars vegar um sjálfstæði Seðlabankans og hins vegar afskipti ríkisstjórnarinnar af peningamálastefnunni. Ég hefði sjálfur verið reiðubúinn til að taka upp slíkar viðræður hefði ég verið í þeirri stöðu að geta gert það enda hef ég margoft lýst yfir efasemdum um þá peningamálastefnu sem starfað hefur verið eftir frá árinu 2001 og talið að ýmislegt í henni væri ekki skynsamlegt eða heppilegt fyrir stjórn efnahagsmála hér í landinu. Vel má vera að menn hefðu átt að bregðast öðruvísi við frá árinu 2001 en í þeirri stöðu sem við erum í núna leysir það engan vanda til framtíðar að horfa í baksýnisspegilinn og velta því fyrir sér hvað hefði átt að gera betur.

Verkefni okkar núna er að búa til einhvers konar framtíðarstefnu peningamála á Íslandi og ég hefði viljað, þegar menn eru á annað borð með frumvarp í höndunum um Seðlabanka Íslands, að það segði eitthvað um þá framtíðarsýn sem ríkisstjórnin hefur varðandi peninga- og gjaldmiðilsmálin. Því miður er svo ekki en ég mundi vilja heyra viðhorf hv. þm. Atla Gíslasonar til þeirra atriða sem ég nefndi í ræðu minni hér. Finnst hv. þingmanni boðlegt að við (Forseti hringir.) þingmenn höfum verið leyndir upplýsingum um það hvaða sérfræðingar unnu að þessu máli?