136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt og ég las upp úr leiðaranum að ritstjórinn fór yfir þá augljósu staðreynd að viðskiptanefnd neyddist til þess að endurskrifa þetta vanbúna frumvarp. Slík er niðurlægingin að þetta mikilvæga mál er þess eðlis að allir þingmenn viðskiptanefndar neyddust til þess að fara í þá vinnu að endurskrifa þetta jafnhratt og mögulegt er til þess að bjarga því sem bjargað varð.

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Mörður Árnason sagði að ég væri að tala í þingflokki sjálfstæðismanna. Nú hef ég verið hér lítið í dag en okkur fer nokkuð fjölgandi sem betur fer. Við vorum að fá góðan liðsmann, hv. þm. Jón Magnússon, en hér eru fleiri inni sem hafa ekki verið í þingflokki sjálfstæðismanna og því má vera að hér hafi eitthvað gerst í dag sem ég veit ekki af. Ég skil það vel að menn séu að fara úr öðrum þingflokkum yfir í þingflokk okkar sjálfstæðismanna en ég hafði ekki hugmynd um að hv. þm. Atli Gíslason væri á leiðinni og hv. þm. Mörður Árnason eða hv. þm. Ellert B. Schram. Ef svo er þá hljótum við að fagna því og það er gott að fá góðan liðsstyrk.

Virðulegi forseti. Þessar upplýsingar hafa ekki borist á borð til mín. Ég hélt að ég væri að ræða við þingmenn allra flokka á þingi en það er auðvitað mikill misskilningur ef marka má orð hv. þm. Marðar Árnasonar.