136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

fullgilding Árósasamningsins.

[13:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra skýr svör við þessari óundirbúnu fyrirspurn og ég hygg að kannski sé ekki hægt að ætlast til að við þingmenn fáum fleiri svör þar til frumvörpin koma fram. Það er ekki um það að ræða að hér komi þingsályktunartillaga um staðfestingu heldur einstök mál.

Þetta er ákaflega gleðilegt og sýnir hver árangurinn er af því að koma Sjálfstæðisflokknum út úr Stjórnarráðinu, því hann hefur í öll þessi 18 ár sem hann hefur setið þar, fram til þessa dags eða fram til þessa mánaðar, staðið á móti staðfestingu þessa sáttmála af einhverjum dularfullum ástæðum. Nánast allir flokkar aðrir hafa reynt að koma þessu á og má minna á að fyrsta staðfestingartillagan kom frá Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins. Það verður ánægjulegt fyrir þá þingmenn sem eru hér í salnum að koma þessu máli í gegn, sem er mikið framfaramál í umhverfismálum og almennum stjórnmálum og félagsmálum á Íslandi.