136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:41]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og góða umræðu hér í dag. En ég verð að segja að mér hafa fundist svör ráðherrans frekar í þynnri kantinum. Hann ræddi m.a. um almennar aðgerðir en eftir þeim hefur verið beðið með eftirvæntingu um nokkurt skeið. Það verður að segjast eins og er að þær hafa látið á sér standa og í rauninni lítið gerst frá því að hin nýja ríkisstjórn tók við fyrir þremur vikum síðan.

Ég spyr hér um eina af stóru atvinnugreinunum í landinu, verslun, sem veitir hátt í 30.000 manns atvinnu. Ég spurði m.a. þeirra lykilspurninga hvernig stjórnvöld ætli að bregðast við erfiðri stöðu verslunar og forða henni frá frekara hruni og um leið koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi í landinu.

Það er á valdi stjórnvalda að bregðast við og gefa svör við mörgum þeirra þátta, sem ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega um. En hins vegar varð fátt um greinargóð og skýr svör.

Ég spurði m.a. um erfiðan aðgang að lánsfé. Eins og hæstv. ráðherra veit kvarta fyrirtækin og heimilin í landinu mjög undan stífni í samskiptum sínum við bankana. Mjög mikilvægt er að bankarnir sýni sveigjanleika í samskiptum við viðskiptavini sína og þvingi fólk og fyrirtæki ekki í þrot að nauðsynjalausu. Það verður að hlúa að lífvænlegum fyrirtækjum og vaxtarsprotum.

Sé gengið að fyrirtækjum í stórum stíl þýðir það að fjöldi fólks, þar á meðal fólk í skilum, missir atvinnu sína og lendir í vanskilum. Ég gat ekki heyrt nein svör frá ráðherranum í þá veru. Þannig að ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með svör hans. Hin nýja ríkisstjórn var með miklar yfirlýsingar um að hún væri starfsstjórn sem mundi einbeita sér að því að taka á vanda fyrirtækja og heimila í landinu. Í raun hefur ekkert komið fram á síðustu þremur vikum annað en það sem hafði verið lagt upp með af fyrri ríkisstjórn.

Þess í stað hefur ríkisstjórnin eytt stórum hluta af tíma sínum í að vinna að málum eins og strúktúrbreytingum á Seðlabankanum og finna út úr hvernig breyta eigi stjórnarskránni. Það er ekki (Forseti hringir.) mest aðkallandi vandamálið (Forseti hringir.) í samfélaginu.