136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:25]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sér algjör óþarfi fyrir stjórnarliða að vera viðkvæmir fyrir því þó að spurt sé um skattamál á hinu háa Alþingi. Við skulum minnast þess að það kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þeirrar sem nú situr, að hún ætli sér að fara í skattahækkanir. Það er fullkomlega eðlilegt að spyrja hver meiningin sé með því en það væri jafnframt gott fyrir þingmenn og aðra þjóðfélagsþegna að fá upplýsingar og skilgreiningar á því hvað eru háar tekjur og hvað eru millitekjur. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi skautað býsna létt í gegnum svörin við þessu þegar einfaldlega var verið að spyrja um hvað ríkisstjórnin eigi við þegar hún talar um að hún ætli að hækka skatta. (MÁ: Hún hefur ekkert talað um það.) Það kom að vísu loksins fram (Forseti hringir.) núna að hún ætli ekki að gera það á þessu kjörtímabili heldur strax eftir kosningar.