136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Gjaldtaka eða veggjöld koma auðvitað vel til greina og væri fráleitt að hrinda þeirri aðferð frá með öllu en eins og hér háttar til tel ég að tími sé kominn til að endurskoða þetta. Hér er veggjald sem á að standa áratugum saman á einhverri mestu þjóðleið á Íslandi og það er auðvitað fráleitt að halda því fram að menn komist í raun og veru aðra leið þó að enn þá sé hægt að fara fyrir Hvalfjörð.

Það er stundum uppi sá misskilningur að þessi göng, Hvalfjarðargöngin, séu í Norðvesturkjördæmi. Það er ekki, þau tengja saman tvö kjördæmi, þau tengja saman Vesturland og síðan Reykjavík. Þau áttu mikinn hlut að því að stækka höfuðborgarsvæðið og hafa þannig nýst ekki bara höfuðborginni heldur landinu öllu því að um þessi göng þarf líka að fara til Norðurlands. Ég tel að hæstv. samgönguráðherra eigi að taka því vinsamlegar (Forseti hringir.) þegar spurt er um þessa hluti.