136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:43]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins út af umræðu um gjaldtöku í vegakerfinu verð ég að lýsa þeirri skoðun og vera aðeins ósammála þeim hv. þingmönnum sem hafa talað hér fyrr. Ég tel að við séum á þeim stað í samgönguuppbyggingu landsins að við verðum að vera tilbúin til að skoða gjaldtöku, ekki bara í Hvalfjarðargöngum heldur líka víðar. Efnahagsástand þjóðar okkar býður einfaldlega ekki upp á það við þessar aðstæður að þetta gjald sé lagt niður. Það er mín sannfæring. Það er líka mín sannfæring að við eigum að vera opin fyrir því í framtíðinni að skoða gjaldtöku víðar, sérstaklega á stórum umferðarmannvirkjum sem verið er að gera kröfu til. Það er verið að gera kröfu til jarðganga hér og þar og við erum einfaldlega þannig stödd í efnahagslífi samfélags okkar að við höfum ekki efni á að gera allt fyrir alla. Þá er ég ekki að tala um að það eigi að eiga sér stað einhver óhófleg gjaldtaka en ég vil hins vegar vera opin fyrir því að það sé skoðað frá öllum hliðum.