136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem tekur á því, ef samþykkt verður, að það skuli vera vilji Alþingis að innkalla allar íslenskar aflaheimildir sem hefur verið úthlutað á undanförnum árum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum, og lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Hæstv. forseti. Til að höndla með þennan rétt, aflaheimildirnar í hafinu, leggjum við til að stofnaður verði sérstakur auðlindasjóður sem íslenska þjóðin eigi og hann hafi það hlutverk að leigja atvinnuréttinn gegn eðlilegu afgjaldi, þ.e. að allar aflaheimildir verði árlega leigðar til þeirra sem nýta vilja. Leiga aflaheimildanna til fiskveiða verði bundin við íslenska ríkisborgara, á jafnréttisgrundvelli, og miðað verði að því að eðlileg nýliðun í útgerð verði tryggð. Óheimilt verði að framleigja leigðar veiðiheimildir. Tekjur af leigu aflaheimildanna renni í auðlindasjóðinn eftir nánari reglum sem Alþingi ákveður. Þetta er efni tillögunnar, hæstv. forseti.

Hér er verið að leggja til verulega breytingu frá því sem nú er um meðferð aflaheimilda á Íslandsmiðum en er þó í nokkru samræmi við það sem menn hafa verið að ræða á undanförnum árum, þ.e. að aflaheimildirnar á Íslandsmiðum tilheyri íslensku þjóðinni, íslenska þjóðin eigi þær og að þær teljist þjóðareign. Þetta hefur m.a. verið rætt í tengslum við endurskoðun stjórnarskrár og mun væntanlega angi þessa máls, þ.e. auðlindir í þjóðareign, koma fram sem þingmál að því er varðar breytingar á stjórnarskránni innan tíðar.

Vissulega er verið að leggja til nýskipan þeirra mála frá því sem nú er. Verið er að leggja til, hæstv. forseti, að aflaheimildirnar sem núna eru varanlega, ef hægt er að segja svo innan gæsalappa, á höndum útgerða sem hafa ráðstöfunarrétt á milli ára og geta leigt þær, selt eða veðsett, að slíkur réttur verði af þeim tekinn, en hins vegar verði passað upp á að útgerðirnar hafi nýtingarrétt því að það er ekki ætlun okkar í Frjálslynda flokknum að reyna að setja útgerðina í landinu á hausinn.

Við viljum hins vegar með þessum breytingum stuðla að því að ljóst sé að það sé íslenska þjóðin sem eigi heimildirnar í hafinu, kvótann, eins og þjóðin kallar það. Í skoðanakönnunum undanfarin ár hefur birst vilji 70% eða jafnvel 80% þjóðarinnar í þá veru að þjóðin eigi að eiga þessar auðlindir, þetta eigi að teljast þjóðareign sem íbúar landsins geti haft nýtingarrétt á. Það er alveg eðlilegt og sjálfsagt að svo sé. Nýtingarrétti á líka að fylgja sú ábyrgð að menn veiði heimildir sínar og ef þeir gera það ekki verði þeim skilað til baka og séu þá leigðar að nýju frá auðlindasjóðnum.

Við leggjum til verulega breytingu frá núverandi kerfi, hæstv. forseti, því við segjum alveg beint og kalt: Aflaheimildir á Íslandsmiðum eiga ekki að vera eign útgerðarmanna. Þeir hafa nýtingarréttinn og hafa kláran nýtingarrétt, hvaða kerfi sem er notað við að stjórna fiskveiðum.

Við þurfum líka að opna fyrir það sem sagt er í tillögunni að menn sitji við sama borð og að nýliðar komist inn í atvinnugreinina án þess að þurfa að greiða fyrir það sérstaklega til núverandi handhafa sem með aflaheimildirnar fara. Það hefur verið kallað leigukerfi, hæstv. forseti, leiguliðakerfi, þegar venjulegir frjálsbornir Íslendingar sem vilja stunda þá atvinnugrein að veiða fisk þurfa að leigja þann rétt af þriðja aðila, þ.e. þeim útgerðarmanni sem fékk aflahlutdeild úthlutað eða hefur hana undir höndum á hverjum tíma.

Því hefur löngum verið haldið fram, hæstv. forseti, að stór hluti aflaheimilda á Íslandsmiðum hafi þegar skipt um hendur og margir hafi keypt aflaheimildir sínar. Ég hygg að ef grannt væri skoðað megi færa fyrir því ýmis rök að þannig sé ekki í pottinn búið. Skipt hefur verið um kennitölur á fyrirtækjum, sameining fyrirtækja, tilfærsla, yfirtökur og ýmislegt fleira sem m.a. bankarnir hafa staðið fyrir og ýtt undir þegar verðreikningur aflaheimildanna og veðsetningin hefur orðið slík að ekkert vit var í henni, hæstv. forseti.

Fyrir rúmu ári synti 10 kílóa þorskur í sjónum við Ísland með 40 þús. kr. veðsetningu á sér, 4 þús. kr. var verðið á hverju kílói þegar menn voru að eiga kaup sín á milli. Út á þetta lánaði íslenska bankakerfið. Það er sennilega þess vegna, hæstv. forseti, sem skuldir sjávarútvegsins í ríkisbönkunum þremur, hinum nýju bönkum, eru 420 milljarðar, eins og kom fram í svari nýlega í hv. Alþingi. Þá eru ótaldar þær skuldir sem eru í Byggðastofnun, hjá sparisjóðum eða öðrum lánastofnunum. Mér er því nær að halda, hæstv. forseti, að núverandi skuldir sjávarútvegsins séu hátt í 600 milljarðar ef allt væri talið miðað við núverandi gengisskráningu.

Skuldsetning útgerðarinnar hefur því verið hrikaleg á undanförnum árum og í raun kippt að hluta rekstrargrundvellinum undan útgerðinni. Það hefur m.a. verið byggt á því að þeir sem nú hafa aflaréttinn geti leigt hann öðrum á ofurverði, verði sem er jafnvel jafnhátt og menn fá fyrir fiskinn þegar búið er að veiða hann, róa til fiskjar, veiða með veiðarfærunum, hantera hann, ísa hann, ganga frá honum, koma með hann og selja hann á fiskmarkaði, þá kemur það stundum fyrir, hæstv. forseti, að verðið fyrir aflann er það sama og hann er leigður á. Það eru aðrir aðilar sem borga leigugjaldið öðrum handhöfum útgerðarinnar sem fá aflann úthlutaðan á hverju ári en ekki ríkinu, það er ekki að renna til íslensku þjóðarinnar.

Ef einhvern tíma hefur þurft að fá nýjar tekjur fyrir íslenska þjóð þá er það einmitt nú, hæstv. forseti. Hins vegar er rétt að taka fram að þegar menn tala um að allar aflaheimildir séu á leigumarkaði út úr svokölluðum auðlindasjóði eins og lagt er til, þá verður leiguverðið allt annað en það hefur verið á undanförnum árum og ekki í neinu samræmi við þá okurleigu og ofurleigu sem menn hafa komist upp með að leigja aflaheimildirnar á.

Ég gæti trúað, hæstv. forseti, að ef útgerðarmenn almennt greiddu allir fyrir nýtingarréttinn sanngjarnt leiguverð til íslensku þjóðarinnar gæti leiguverðið á þorskígildiskíló — eins og menn vita er þorskígildið þannig reiknað að þorskurinn er einn og svo eru aðrar tegundir út frá því, sumar aðeins verðmætari en þorskurinn en margar lægri en hann — sem menn gætu rekið sig á sennilega verið á bilinu 25–30 kr. að hámarki. Ef leigja ætti þau 300 þús. þorskígildi sem eru innan lögsögunnar til íslenskra útgerðarmanna sem hafa þá aðgang með nýtingarrétti og annarra sem vilja leigja til sín og hafa ekki haft aflahlutdeildir á undanförnum árum, en fyrir slíkan aðgang leggjum við til að sé opnað með þeirri leið sem hér er lögð til, þá teljum við að það væri eðlilegur afreikningur þegar væri búið að selja fiskinn á markaði að til íslenska ríkisins rynnu 25–30 kr. af hverju einasta kílói. Það jafngildir því að af 300 þús. þorskígildum fengi íslenska þjóðin á hverju ári 9 milljarða kr. ef við notuðum 30 krónurnar, 9 milljarða kr. í nýjar tekjur.

Utan lögsögunnar eru um 70 þús. þorskígildi, hæstv. forseti, í þeim fisktegundum sem reiknaðar eru inn í kvóta en nokkrar fisktegundir eru ekki reiknaðar inn í kvóta enn þá. Þó að menn hafi verið iðnir við að fjölga fisktegundum í íslenska kvótakerfinu á undanförnum árum og búa til veðsetningarmöguleika og sölumöguleika bæði fyrir bankakerfið og útgerðina eru samt sem áður nokkrar tegundir utan aflahlutdeildarkerfis. Það má nefna nýjasta fyrirbærið, gulldeplu, sem ekki hefur enn ratað inn í kvótann og nefna má makrílinn, yfir 100 þús. tonn af honum voru veidd hér við land á síðasta ári, svo einhverjar tegundir séu nefndar. Þar áður var kolmunninn utan kvóta en menn mynduðu sér veiðireynslu af honum og fengu því úthlutað þeir sem það höfðu stundað. Síðan eru veiðiheimildir í Barentshafi með samningi við Norðmenn og Rússa í bolfiski. Veiðiheimildir eru á Flæmska hatti í rækju sem lítið hafa verið nýttar á undanförnum árum og karfinn er utan lögsögu, þ.e. úthafskarfinn, að ógleymdri norsk-íslensku síldinni, sem er sameiginlegur stofn sem við veiðum úr ásamt Norðmönnum, Færeyingum og Rússum og reyndar Evrópusambandinu sem kom inn í þann samning fyrir nokkrum árum með harðri kröfu um að fá hlutdeild í þeim stofni.

Þetta er það sem við erum að tala um, hæstv. forseti, og alveg ljóst að ef menn ætla að leigja þessi 70 þús. þorskígildi utan lögsögunnar er ekki verið að tala um 30 kr. á kíló. Sú sókn er dýrari, sækja þarf lengra til að ná í þann afla og búa til verðmæti úr honum. Við værum því ekki að leggja það til að sami reikningur væri fyrir leiguverð á veiðum utan lögsögu og innan.

Hæstv. forseti. Þetta þarf að ganga þannig upp að menn séu ekki að setja núverandi útgerð á hausinn þó svo að menn ákveði að breyta því óréttláta fyrirkomulagi sem verið hefur undanfarin ár og áratugi. Við leggjum til að íslenska þjóðin eignist aflaheimildir sínar og þeim verði ráðstafað til leigu á hverju ári fyrir þá sem vilja stunda þær fiskveiðar. Vissulega hefur útgerðin sem núna er í landinu mikinn rétt til þess að fá að stunda fiskveiðar og auðvitað þarf að marka henni eitthvert nýtingarhlutfall úr þeim heildarpotti, a.m.k. meðan aðlögun á sér stað.

Hæstv. forseti. Við sem flytjum tillöguna, sem eru ásamt mér hv. þm. Grétar Mar Jónsson og hv. fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, Jón Magnússon, sem nú er genginn í Sjálfstæðisflokkinn, teljum að horfa verði til framtíðar og beinlínis verði að taka á því vandamáli sem við höfum orðað svo að á Íslandi væri kvótabraskskerfi vegna þess að réttinum hefur verið úthlutað til útgerðarmanna sem hafa haft algjört frjálsræði með það hvernig þeir hafa farið með þær aflaheimildir, leigt þær, selt, veðsett o.s.frv.

Það er mjög ánægjulegt, hæstv. forseti, að nú skuli vera uppi alvarleg umræða um að setja ákvæði um að auðlindir sjávar skuli vera í þjóðareign og setja þau inn í stjórnarskrána. Væntanlega verður það til þess að styrkja enn frekar rétt íslensku þjóðarinnar til þessarar auðlindar sinnar og reyndar margra annarra auðlinda. Við getum nefnt ferskvatnið, heita vatnið, olíuna, ef hún finnst, og þess vegna landbúnaðarlandið, hæstv. forseti, sem sérstök hlunnindi sem þarf að horfa til að því er varðar notkun og nýtingu íslensku þjóðarinnar og þeirra þegna landsins sem hér búa og vilja starfa.

Hæstv. forseti. Sá tími sem ég hef í framsögu er að verða búinn en ég óska eftir að fá að taka aftur til máls. Hér er um geysilega stórt og viðamikið mál að ræða sem ekki er hægt að gera fullnægjandi grein fyrir í stuttu máli en ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að ég tel að nú sé tími þess að þjóðin fái auðlind sína til baka og taki fyrir hana sanngjarnt gjald en þeir sem við eiga að búa, þ.e. íslenskir útgerðarmenn, eiga vissulega að hafa vissu fyrir því að geta gert út.