136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Kjartan Ólafsson talaði um að við mættum ekki taka áhættu með breytingu á kvótakerfinu. Við skulum þá skoða hvað menn hafa verið að aðhafast í kvótakerfinu á undanförnum árum.

Meginbreytingin sem varð var í ráðherratíð Þorsteins Pálssonar, sem nú er ritstjóri Fréttablaðsins. Hann innleiddi frjálsa framsalið algerlega óheft, tók í burtu umsagnar- og neitunarvald stéttarfélaga og sjómannafélaga um að kvótinn væri færður úr byggð, tók í burtu neitunarvald bæjarfélaga um að kvótinn væri færður úr byggð. Menn ákváðu síðan að búa til hjáregluna um kvaðabindingu kvótans við skip og náðu þannig að veðsetja aflakvótann kringum útgerðina sem varð síðan grundvöllur þess að menn skuldsettu útgerðina í hvert skipti sem kvótinn var seldur, alltaf var söluverðið að hækka og menn fengu hærra lán, þeir sem keyptu. Þetta varð til þess að skuldir sjávarútvegsins hafa vaxið á undanförnum árum, ég veit að hv. þm. Kjartan Ólafsson veit nákvæmlega hvað ég er að tala um í því sambandi.

Hæstv. forseti. Hverjir voru það yfirleitt sem bjuggu til aðferðina við að leigja fisk? Voru það ekki útgerðarmennirnir sjálfir sem stofnuðu til þess að fara að leigja óveiddan fisk í sjó? Jú, þeir gerðu það, engir aðrir. Þeir bjuggu til þá aðferð. Þeir bjuggu líka til þá aðferð að uppreikna verðmæti á óveiddum fiski í sjó þangað til veðsetningin á hvert kíló var orðin 4.000 kr. (Forseti hringir.) Það hefur enginn rutt þessa braut aðrir en íslenskir útgerðarmenn og nú er komið að því að þjóðin fari að fá einhvern arð af auðlind sinni.