136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið um þetta frumvarp. Það er mjög mikilvægt að það er komið inn í þingið. Það er rétt að það tekur ekki með beinum hætti á stöðu heimilanna í landinu nú um stundir enda er því ekki ætlað að gera það. Því er ætlað að stuðla að heilbrigðara viðskiptalífi og heilbrigðara efnahagslífi en hér hefur verið um árabil. Því er ætlað að styrkja þær stoðir sem þessi ríkisstjórn er reist á sem er m.a. krafan um gegnsæi og upplýsingaskyldu.

Ég tek undir orð hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur hvað varðar kynjahlutföllin ef ég nefni það fyrst, kröfu um að upplýsingar skuli gefnar um hlutföll kynja meðal starfsmanna og í stjórn, bæði til hlutafélagaskrár og til félagsmanna og að gætt skuli að kynjahlutföllum og þau gefin upp í tilkynningum eins og ég sagði. Hér er um að ræða skref í rétta átt. Ég minni á að áður en lögin voru sett í Noregi sem skylduðu almenn félög til að gæta að kynjahlutföllum með lagafyrirmælum var gefinn tiltekinn umþóttunartími. Það er komið í lög um opinber hlutafélög að þar skuli gæta tiltekins jafnræðis. Hér er um að ræða skref í rétta átt eins og ég segi, ekki bein lagafyrirmæli en það mætti hugsa sér og við gætum kannski rætt í hv. viðskiptanefnd hvort eðlilegt væri að setja einhvers konar aðlögunartíma að því að tilteknu markmiði yrði náð að konur og karlar kæmu sem jafnast að þessu borði. En þetta er skref í rétta átt og ég fagna því.

Ég fagna því einnig að hér skuli vera gerðar kröfur til þess að stjórnir íslenskra hlutafélaga veiti betri upplýsingar um hluthafa í félaginu, um hlutafjáreign þeirra og um atkvæðisrétt, og ekki síður um samstæðutengsl sem félagið á í. Þetta er mikilvægt, eins og ég hef nefnt áður, vegna þess sem hefur verið landlægt hjá okkur, í rauninni hefur ekki verið vitað hverjir eigi félög þótt það geti hafa breyst verulega frá því að síðustu upplýsingar voru gefnar. Ég ætla að koma aðeins að þessu á eftir.

Í þriðja lagi er í þessu frumvarpi lagt til að tekin verði upp ný ákvæði sem komi í veg fyrir svokallaða starfandi stjórnarformenn í hlutafélögum þó að stjórn félags ætti áfram að geta falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina.

Þetta eru meginatriði frumvarpsins, þ.e. upplýsingar um eignarhald og atkvæðisrétt, um kynjahlutföll og um starfandi stjórnarformenn. Þetta eru einföld atriði en tengjast stórum málum, eins og hér kom til umræðu áðan, um stöðu opinberra hlutafélaga til að mynda og um yfirtökuskyldu, um krosseignatengsl og um samþjöppun á eignarhaldi en þetta eru allt atriði sem eru til skoðunar, m.a. á vettvangi hv. viðskiptanefndar.

Hv. þm. Pétur Blöndal spurði áðan hvort þetta frumvarp sem slíkt kæmi að mati hæstv. viðskiptaráðherra í veg fyrir krosseignarhald sem hæstv. ráðherra og báðir þeir sem hér töluðu um þessi mál kölluðu eina af þeim meinsemdum sem hefðu verið í hagkerfinu hjá okkur. Hann kvað nei við.

Ég minni á að í frumvarpi sem er til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd og er að finna á þskj. 53, 53. máli þingsins, breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, þar sem fjallað er m.a. um yfirtökureglur þar sem minnihlutavernd er aukin og dregið úr samþjöppun á eignarhaldi, er verið að lækka yfirtökuskylduna úr 40% niður í 33%, og jafnvel niður í 30% ef tekið verður mið af þeim umræðum sem urðu í hv. viðskiptanefnd í morgun. Ég bendi á að í 2. gr. þess frumvarps er að finna nýmæli sem tekur á krosseignatengslum að því leytinu til að þar er kveðið á um tengsl milli aðila innan eða utan félags. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa greinina. Það er nýr töluliður sem á að bætast inn í 100. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bein eða óbein tengsl á milli aðila innan eða utan þess félags sem í hlut á, hvort sem um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum, sem líkleg eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan þannig að þeir ráði yfir því.“

Þetta er sem sagt skilgreining á því hvað teljast bein og óbein tengsl á milli aðila. Þetta varðar auðvitað yfirtökuskylduna sem verið er að lækka og einnig það sem er að finna í því frumvarpi, um upplýsingaskyldu, um það hverjir séu hluthafar, hversu stóran hlut þeir eigi og hver sé atkvæðisréttur þeirra. Það frumvarp sem hér er lagt fram er mjög mikilvægt skref einnig í þá átt að draga úr vafa um krosseignatengsl og samþjöppun, jafnvel undir fölsku flaggi eins og talað hefur verið um, og er sett fram vegna þess að tengslareglan í gildandi lögum nú er ómarkviss og hefur í framkvæmd hentað illa eins og segir í greinargerð með því frumvarpi sem ég nefndi áðan. Þetta mál er til skoðunar í hv. viðskiptanefnd og hefur fengið þar ágæta skoðun.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart en það er svolítið þannig að málin sem liggja fyrir hv. viðskiptanefnd og jafnvel hv. allsherjarnefnd líka eru sum hver óttalega mikið 2007. Nú er það þannig, virðulegur forseti, að við verðum að setja upp önnur gleraugu þegar við lesum í gegnum þau mál sem liggja á borðum þingmanna. Hlutirnir hafa einfaldlega breyst, ekki síst í viðskiptalífinu, og tillögur sem fyrir hálfu ári þóttu kannski sjálfsagðar miðað við það viðskiptaumhverfi, það viðskiptasiðferði og þá miklu gósentíð sem talin var vera í þeim geira eru kannski algerlega fráleitar í dag í ljósi hrunsins. Ég gæti nefnt nokkur dæmi sem þegar hafa komið fram í hv. viðskiptanefnd.

Herra forseti. Ég vænti þess að hv. viðskiptanefnd taki þetta mál og vindi sér í að afgreiða það eins fljótt og örugglega og hægt er. Þetta er ekki mjög flókið mál, tekur á þremur brýnum þáttum, nokkuð einföldum. Nefndin mun einnig að áskorun hæstv. ráðherra kanna hvort nauðsynlegt sé að veita aðlögunartíma vegna starfandi framkvæmdastjóra eins og hæstv. ráðherra nefndi.