136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki sanngjarnt að ætlast til þess að ríkisstjórnin komi með mikið af málum strax í upphafi vegna þess að hún er jú að taka við nýju búi og þarf að setja sig inn í mál og sum af þessum málum sem hv. þingmaður nefndi eru frá fyrrverandi ríkisstjórn og það er allt í lagi með það og eðlilegt.

En það eru kannski frekar áherslurnar. Það er búið að leggja gífurlega mikla áherslu á eftirlaunafrumvarpið. Það er búið að leggja gífurlega mikla áherslu á seðlabankafrumvarpið. Á meðan hefur margt annað beðið. Það er ég að gagnrýna, að menn hefðu getað unnið meira, sérstaklega við að koma bönkunum í gang.

Þau mál sem hv. þingmaður nefndi eru öll góðra gjalda verð og ég minni á að fyrrverandi ríkisstjórn taldi upp hundrað mál á hundrað dögum. Ég meina, það er eitt mál á dag. Það var ágætis gangur þar í því að laga hitt og þetta í stöðu heimilanna.

En það er bara staðreynd að það að fara út í kosningar, skipta um ríkisstjórn og núna prófkjör og síðan kosningar það varpar þjóðinni svona fjóra til sex mánuði aftur í tímann. Það er bara þannig. Síðan verða kosningar og svo eftir kosningar verður stjórnarmyndun sem vonandi verður hröð og góð. Ég ætla ekki að spá neinu um það hvernig það verður.

En þessi skipti öll kosta. Það er bara þannig. Ég er eiginlega meira að benda á að skiptin kosta tíma og orku fyrir bæði Alþingi og ríkisstjórn og því miður þess vegna taldi ég að það að skipta um ríkisstjórn væri alls ekki heppilegt í þessari stöðu. Við hefðum átt að bíða með það kannski í sex mánuði eða eitthvað svoleiðis. En við stöndum frammi fyrir þessu núna og kosningar eru staðreyndin.