136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra svörin. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra áfram með það verk sem hún er greinilega mjög einbeitt í að vinna, að halda áfram með þá vinnu sem fyrri ríkisstjórn hafði um einföldun á almannatryggingakerfinu. Ég held að þar séu veruleg tækifæri til að auka þjónustu við almenning í þessu landi, við þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda.

Ég vil líka beina því til hæstv. ráðherra að við þessa öld sem nú er uppi í þjóðfélaginu, og ég veit að hún tekur undir það með mér, skiptir þetta kerfi gríðarlegu máli. Ég held að ef við náum að gera lagfæringar og einfalda kerfið sparist fjármunir sem ég treysti að muni nýtast þeim sem á þurfa að halda og vil þess vegna hvetja hæstv. ráðherra til að líta til þess í öllum sínum verkum að reyna að ná í aukafjármuni til hjálpar þeim sem nú þurfa mest á hjálp að halda.