136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Á vinnumarkaði eru 160 þúsund manns og 16 þúsund manns án atvinnu er vissulega mjög slæmt fyrir hvern og einn þeirra en eftir eru 90%. Auðvitað lenda þeir líka í vandræðum. Sumir eru með gengistryggð lán, sumir hafa tekið of mikið af lánum, yfirdráttum og öðru slíku og eru í vandræðum þó að þeir hafi ekki misst vinnuna. En við skulum ekki horfa alfarið á dökku hliðina, þá leggjast menn bara í þunglyndi. Við eigum að horfa á það sem þjóðin stendur fyrir. Mér skilst að síðasta mánuð hafi ekki verið neinar fjöldauppsagnir, mér finnst það mjög jákvætt. Mér skilst að margir af þeim sem hafa orðið atvinnulausir séu komnir með vinnu aftur, mér finnst það jákvætt.

Þetta er verkefni að vinna og ég sé það ekki svo dökkt að ég gefist upp, alls ekki. Mér finnst það eiginlega áskorun að takast á við þetta verkefni ásamt með öllum öðrum Íslendingum og vinna það. Við eigum að horfa á getuna. Þjóðin er mjög vel menntuð, mjög sterk og dugleg. Hún hefur lent í áföllum áður og hefur staðið sig í því. Við erum líka með mjög sterkan útflutning öndvert við aðrar þjóðir sem hafa lent í svona vandræðum, mjög sterkan útflutning. Og þó að verðlag á heimsmörkuðum hafi lækkað bæði fyrir ál og fisk þá er það ekki til að leggjast undir sæng og fara að gráta. Það hefur komið fyrir áður. (Gripið fram í.) Nei, það hefur komið fyrir áður.

Við verðum bara að segja að þetta mun lagast, að sjálfsögðu. Þá munum við rísa upp miklu sterkari. Þjóðin hefur breytt hegðun sinni heilmikið, hún er farin að spara. Mér finnst það mjög jákvætt. Vöruskiptajöfnuðurinn er með mikinn afgang. Vandamál okkar núna eru jöklabréfin en við munum ráða við þau á tveimur eða þremur árum.