136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér er nákvæmlega sama hvað er bókað í forsætisnefnd Alþingis. Ég sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs veit fyrir hvað sá flokkur stendur og veit að hann hefur ætíð og alltaf lagst gegn hvers kyns beitingu ofbeldis. Ég hvatti héðan úr þessum ræðustóli til þess þegar sem mestur óróleiki var í þjóðfélaginu að allir gættu stillingar og hófs og hef ævinlega og ætíð fordæmt allt ofbeldi. Það er algerlega óboðlegur óhróður sem er beint nánast að heilli ríkisstjórn og stjórnmálaflokki, tal af þessu tagi að ríkisstjórn hafi komist til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Þetta er svo yfirgengilegur málflutningur að hann dæmir sig auðvitað algerlega sjálfur. Ég kalla það ekki gífuryrði nema þá það að vitna í hv. þm. Sturlu Böðvarsson. Það má auðvitað segja að það sé viss tegund gífuryrða að leggja það á Alþingi og ræðutíðindin að vitna orðrétt í hv. þingmann en það var það sem ég gerði. Að öðru leyti hafði ég ekki um þetta önnur orð en þau að ég lýsti skömm minni á þessum málflutning hv. þingmanns. Þetta er með því allra lágkúrulegasta og fyrirlitlegasta sem ég hef séð íslenskan stjórnmálamann lengi reyna, að fara í opinberri blaðagrein fram með þessum hætti gagnvart ríkisstjórn og stjórnmálaflokkum og starfsfélögum sínum í pólitík að ekki bara láta að því liggja, heldur nánast segja það berum orðum að menn hafi komist til valda á grundvelli ofbeldisaðgerða gegn Alþingi sem þeir hafi sjálfir skipulagt. Þetta er svo fjarri öllum veruleika og hv. þingmaður hlýtur að vita að það er alrangt, þetta er ósannur, ómaklegur og óviðeigandi óhróður sem er hv. þingmanni til sérstakrar skammar og að hann skuli kjósa að merkja starfslok sín á Alþingi með þessum hætti er auðvitað ömurlegt. Þetta heitir að enda illa, frú forseti, verð ég að segja.