136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús -- forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

[11:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni það traust að kalla mig forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í fleirtölu. Ég get upplýst hv. þingmann um það að í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna er tekið á nokkrum lykilþáttum sem þessi ríkisstjórn hefur hugsað sér að vinna að fram að kosningum. Það eru þættir eins og aukið lýðræði, jöfnuður og upplýsingar, endurreisn efnahagslífsins, endurskipulagning í stjórnsýslu, aðgerðir í þágu heimila, aðgerðir í þágu atvinnulífs og aðgerðir til að byggja upp fjármálakerfið og greiða úr vanda fyrirtækja, eins og það heitir í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Að öllum þessum málum er unnið hörðum höndum. Á Alþingi hafa verið til umræðu fjölmörg mál sem snúa að þessum þáttum, greiðsluaðlögunarmál, virðisaukaskattsbreytingar, séreignarsparnaðarmál o.fl., til þess að bæta stöðu heimilanna og atvinnulífsins. Frumvörp sem fjármálaráðherra mælti m.a. fyrir í gær taka sérstaklega á vanda atvinnulífsins. Allir þingmenn sem tóku til máls í umræðunni lýstu sig í meginatriðum sammála þeim, líka þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Einn þáttur í því endurreisnarstarfi sem nú fer fram er að sjálfsögðu að endurheimta traust í samfélaginu milli stofnana og þjóðarinnar, milli þings og þjóðar, traust landsmanna á fjármálastofnunum og á stjórnkerfinu öllu. Liður í því eru að sjálfsögðu þær breytingar sem lagðar hafa verið fram á stjórnskipunarlögum, á stjórnarskránni og kosningalögum, og er í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við þrotabúi Sjálfstæðisflokksins og hún ætlar sér að vinna að uppbyggingu í efnahagslífinu, í atvinnulífinu og hún vinnur að því hörðum höndum, eins og komið hefur fram í öllum þeim málum sem við höfum verið með til umfjöllunar. Þetta er ríkisstjórn í þágu fólksins í landinu.