136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:44]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að nefndin tók hönnuðina inn, þennan hóp tæknimanna, er einfaldlega sú að atvinnuleysistölur sýna að þar er mjög lítið í gangi. Trésmiðurinn eða sá sem er að byggja fær virðisaukann til baka af trésmíðameistaranum eða sveininum sem er að vinna á byggingarstað. Þannig hefur það verið í 60% og nú er verið að fara með það í 100%.

Hvatinn er auðvitað augljós ef við horfum á þetta í afturvirkni rásarinnar inn í kerfið. Þegar við tökum 20% í fráveituframkvæmdum sveitarfélaga eins og hefur verið koma 20% inn og þau fara aftur augljóslega inn í kerfið en til þess að það verði að veruleika, eins og hv. þm. Pétur Blöndal þekkir, þarf fjármagn að vera til staðar. Einhvern veginn þurfa 80% að koma, annaðhvort í formi lánsfjármagns eða í formi eigin fjár.