136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:09]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir mjög góðar undirtektir við þetta frumvarp svo og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þetta er jú eitt af fyrri frumvörpum eða eitt af fyrstu málum sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur lagt fram til að styrkja og koma til móts við atvinnulífið, á þeim þáttum sem hér hafa verið raktir hvað varðar að fella niður virðisaukaskatt af launum við vinnu á byggingarstað og það tengist líka þessum húshlutum.

Ég lagði fram fyrirspurn fyrr í vetur um þetta mál til þáverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Árna Mathiesens, og í því skriflega svari sem ég fékk kom fram að það væri ekki á döfinni af hálfu þáverandi fjármálaráðherra að ganga þessi skref, þótt nauðsyn þess væri fyrirséð. Ég vil líka árétta að mér finnst að þetta eigi líka að ná t.d. til viðgerða á eldri húsum sem eru í bland frístundahús og menningarhús.

Varðandi innflutning á húsum og húseiningum vil ég spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson hvort hann sé ekki sammála mér í því að þessi tímabundna aðgerð nái fyrst og fremst til innlendra verksmiðjuframleiddra húsa en ekki innfluttra því það held ég að sé mjög mikilvægt. Þetta er aðgerð til þess að styrkja innlent atvinnulíf, standa vörð um innlend störf sem eru virðisaukandi.